Malbikstöðin ehf. hefur opnað nýja malbikunarstöð en heildarfjárhæð fjárfestingarinnar í henni er í kringum 2,5 milljarða króna. Eigendur eru Fagverk verktaki efh. Nýja stöðin er sögð gera fyrirtækinu kleift að framleiða mun umhverfisvænna malbik en mögulegt hefur verið til þessa á Íslandi.

Stöðin er staðsett á Esjumelum í Reykjavík og samsvarar afkastageta hennar öllu því malbiki sem lagt er á höfuðborgarsvæðinu. Hún er  hönnuð fyrir norrænar aðstæður og búin vandaðasta tæknibúnaði sem völ er á segir í tilkynningu.

„Heildarupphæð fjárfestingarinnar er í kringum 2,5 milljarðar. Við höfum metnað til að gera þetta virkilega vel og er engin vanþörf þar á enda malbik okkur öllum nauðsynlegt og enn nauðsynlegra að það sé framleitt og lagt með það fyrir augum að fylgt sé öllum gæðastöðlum svo öryggi landsmanna og þeirra sem landið sækja sé sem mest á götum úti,“ segir Baldur Þór Halldórsson, framkvæmdastjóri Malbikstöðvarinnar.

Malbikstöðin ehf. er í eigu Fagverks verktaka ehf. en það fyrrnefnda sér um malbiksferlið á framleiðslustigi og það síðarnefnda sérhæfir sig í malbikun og malbiksfræsun. Hjá fyrirtækjunum starfa sérfræðingar sem margir hverjir búa yfir áratuga reynslu og er allur tækjabúnaður sem notast er við fyrsta flokks.

„Það er okkur kappsmál  að vanda vel til verka en það er líka nauðsynlegt að vera með góða og öfluga samstarfsaðila. Við höfum verið virkilega heppin hvað það varðar í gegnum tíðina og má í því samhengi til dæmis nefna Mannvit, Verkís, Grímu arkitekta, VSÓ, Feril og Upprisu. Maður á að hafa orð á því sem vel er gert og opnun nýju malbikstöðvarinnar var möguleg í samstarfi við þessi fyrirtæki,“ segir Baldur Þór ennfremur.

Malbiksstöðin
Malbiksstöðin
© Aðsend mynd (AÐSEND)