Arna ehf., mjólkurvinnsla í Bolungarvík, hyggst hefja starfsemi í byrjun næsta mánaðar, að því er segir í frétt Bæjarins besta. Fyrirtækið mun framleiða mjólkurvörur fyrir fólk með mjólkuróþol. Mjólkin er þá meðhöndluð þannig að hún innihaldi ekki mjólkursykur og getur þá fólk með óþol neytt hennar án þess að finna til óþæginda. Fyrirtækið fékk 1,5 milljóna króna nýsköpunarstyrk frá samfélagssjóði Landsbankans til verkefnisins.

„Ég er að vonast til að geta byrjað fljótlega í ágúst, jafnvel í annarri viku mánaðarins. Við erum að klára uppsetningu á tækjabúnaði og munum í fyrstu bjóða upp á drykkjarmjólk, rjóma og AB-mjólk. Um mánaðarmótin ágúst-september ráðgerum við að bæta við vörutegundum s.s. skyri og bragðbættu jógúrti,“ segir Hálfdán Óskarsson, mjólkurtæknifræðingur og einn eigenda Örnu ehf. í samtali við BB.is.

Framleiðsla fyrirtækisins verður í fyrstu aðeins í boði á heimamarkaði, þ.e. á Vestfjörðum, en síðan er stefnan að bjóða hana um land allt.