*

þriðjudagur, 23. júlí 2019
Innlent 15. mars 2018 20:36

Ný námsbraut fyrir verslun og þjónustu

SVÞ hafa, í samstarfi við Tækniskólann, sett upp nýja námsbraut fyrir störf í verslun og þjónustu.

Ritstjórn
Margrét Sanders, formaður Samtaka verslunar og þjónustu.
Aðsend mynd

Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ), í samstarfi við Tækniskólann, hafa sett upp nýja námsbraut fyrir störf í verslun og þjónustu. Kennsla hefst næsta haust og verður lögð áhersla á stafrænar lausnir og færnisþjálfun.

Þetta kom fram í erindi Margrétar Sanders, formanns SVÞ, á ársfundi samtakanna sem haldinn var á Hilton Reykjavík Nordica í dag. Fundurinn bar yfirskriftina „Framtíðin er núna!“. Á fundinum var einblínt á framtíðina og þá áhrifavalda sem hafa áhrif á breytingar á straumum og stefnum hvað verslun og þjónustu varðar.

Ráðherra ferðamála, viðskipta- og iðnaðar, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir opnaði dagskrá ráðstefnunnar. Auk ráðherra og Margrétar Sanders fluttu Magnus Lindkvist, sænskur framtíðarfræðingur, og Lisa Simpson, sérfræðingur hjá Deloitte, erindi. Fundarstjóri var Bergur Ebbi Benediktsson.

Í erindi sínu sagði Magnus Lindkvist meðal annars að framtíðin væri viss virkni. „Við þurfum að hætta að vera fórnarlömb og byrja að skipuleggja og stýra eigin örlögum,“ sagði Lindkvist. Lisa Simpson sagði meðal annars í erindi sínu að Blockchain væri sú tækni sem mun hafa hvað mestu áhrif á viðskiptamódel í framtíðinni og hvernig fólk hagar samskiptum sínum við aðra.