Ný nefnd hefur verið stofnuð sem mun starfa undir FKA, Félagi kvenna í atvinnulífinu. Hún mun heita ung­ar at­hafna­kon­ur og var stofnuð fyr­ir ung­ar kon­ur sem hafa áhuga og metnað fyr­ir at­vinnu­líf­inu og starfs­frama sín­um. Stofnun nefndarinnar var kynnt og samþykkt á aðalfundi FKA í maí, en starfsemi hennar mun hefjast í haust.

Lilja Gylfa­dótt­ir, forsprakki nefnd­ar­inn­ar, seg­ir í viðtali við Morgunblaðið , þörf hafa verið á nefnd sem þess­ari fyr­ir ung­ar kon­ur með metnað og há­leit mark­mið. Hug­mynd­ina að stofn­un nefnd­ar­inn­ar fékk hún eft­ir að hafa sótt viðburði á veg­um FKA með mömmu sinni, „mamma er búin að vera í FKA mjög lengi og þetta byrjaði þannig að hún bauð mér með á viðburði sem leyfðu gesti. Þar var ég alltaf langyngst, en þótti samt fyr­ir­lestr­arn­ir og umræðurn­ar mjög áhuga­verðar. Mér fannst vanta eitt­hvað slíkt fyr­ir yngri kon­ur, þar sem ég held að marg­ar hefðu áhuga á að koma á slíka viðburði og hitta þess­ar kon­ur og læra af þeim.“

Að sögn Lilju verður stílað inn á áhuga­verða fyr­ir­lestra og kon­ur sem skarað hafa fram úr fengn­ar til að tala. Einnig er stefnt að því að halda áhuga­verða fyr­ir­lestra, til dæm­is um það hvernig best sé að vera í at­vinnu­viðtali og hvaða mögu­leika maður hef­ur eft­ir há­skóla. Að sögn Lilju er ekki ein­blínt sér­stak­lega á viðskipta­fræði, „leiðtog­ar koma úr öll­um náms­grein­um og öll­um átt­um“ seg­ir hún að lok­um.