Arion banki, Landlæknir og Fjártækniklasinn hafa tekið höndum saman og munu standa fyrir Lausnarmóti Nýsköpunarvikunnar 2020 sem mun eingöngu fara fram á netinu í ár, en um er að ræða nýja hátíð. Í Lausnarmótinu svokallaða, verða settar fram áskoranir tengdar fjártækni og heilsu en Arion banki og Landlæknir leggja fram bæði gögn og verkefni.

Lausnarmót, öðru nafni hakkaþon, snúast um vandamál og lausnir. Fyrirtæki og stofnanir setja fram krefjandi og skemmtilegar áskoranir og þátttakendur takast á við að leysa þau í teymum. Hakkaþon er þannig blanda af forritunar og viðskiptaþróunarkeppni.

Þannig eru lausnamót eða hakkaþon sögð í tilkynningu sérstaklega áhugaverð leið til að fá utanaðkomandi aðila að borðinu og mörg fyrirtæki nota lausnamót sem vettvang til að finna hæfileikaríka einstaklinga. Fjártækni og heilsuhakkaþonið fer fram dagana 1. til 5. október næstkomandi.

Lausnarmótið er hluti af nýrri hátíð, Nýsköpunarvikunni, sem fer fram í fyrsta sinn dagana 30. september - 7. október. Á dagskrá verða ýmsir viðburðir, lausnarmót, pallborðsumræður og fyrirlestrar sem tengjast nýsköpun.

Frumkvöðlum og fyrirtækjum gefst tækifæri á að kynna þá skapandi starfsemi sem á sér stað á degi hverjum, opna dyrnar fyrir gestum og gangandi og vekja athygli á þeim framúrstefnulegu lausnum sem hafa sprottið upp úr íslensku hugviti.

„Hakkaþon eru frábær aðferð til að koma af stað hugmyndum, við höfum mýmörg dæmi þess að stór verkefni/fyrirtæki hafa byrjað í hakkaþoni. Nú við síðustu úthlutun Tækniþróunarsjóðs er t.d verkefni sem byrjaði sem hugmynd hjá íslenskum læknum í hakkaþoni í fyrra, fór svo í viðskiptahraðal og var núna að fá tugmiljóna stuðning frá Tækniþróunarsjóði. Hakkaþon geta því skapað störf og tækifæri sem er mjög mikilvægt á tímum sem þessum,” segir Freyr Ketilsson, einn af skipuleggjendum Nýsköpunarvikunnar.

„Landlæknisembættið vonast til með þátttöku sinni að geta ýtt undir nýsköpun í heilsutækni. Skapað lausnir sem snjallir hugar sjá tækifæri í og eru þá sérsniðinn ákveðnum hópi notanda. Markmið Landlæknis er að fá lausnir sem nýtast notandum og auka gæði þjónustu embættisins,” segir Ingi Steinar Ingason, deildarstjóri rafrænnar sjúkraskrár hjá stofnuninni.

„Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru ein stærsta áskorun samtímans og við hjá Arion banka viljum leggja okkar af mörkum svo Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart Parísarsamkomulaginu og öðrum innlendum og alþjóðlegum umhverfis- og loftslagssáttmálum. Við viljum auka vitund viðskiptavina um þeirra kolefnislosun og hjálpa þeim í að taka fleiri græn skref,” segir
Vilhjálmur Alvar Halldórsson sem starfar í stafrænni þróun og opinni bankaþjónustu Arion banka.