Nýherji hefur kynnt til sögunnar ThinkPad X300, sem er þynnsta fartölva sem Lenovo hefur framleitt. Tölvan er einungis 18,6 mm að þykkt, auk þess sem 90% umbúða vélarinnar eru úr endurnýtanlegum efnum.

Í fréttatilkynningu frá Nýherja segir að hönnun vélarinnar hafi tekið mið af hönnun Formúlu 1 bíla og Airbus A380 til að tryggja að hún þoli mikið hnjask.

"ThinkPad X300 hefur vakið mikla athygli fyrir hönnun enda er hún einstaklega þunn og vegur einungis 1,33 kg. Vél er sögð best hannaða ThinkPad tölva frá upphafi. Hönnunarferlið tók 20 mánuði þar sem farið var ofan í alla þætti sem máli skipta," segir í fréttatilkynningu frá Nýherja.

Vélin er með 13,3 tommu breiðtjaldsskjá með 1.440x900 díla upplausn.  Skjárinn er með LED tækni sem er mun skarpari og notar 70% minni orku en hefðbundnir skjáir.

Þá er X300 með afar hraðvirkan disk, svokallaðan SSD disk, sem notar flash minni í stað hefðbundinna diska með seguldiskum og leshausum. Með SSD diski fæst styttri ræsitími, hraðari ræsing forrita enda 50% hraðvirkari en diskur, minni hitamyndun og lengri líftími þar sem slit er minna. Þá þola SSD diskar þrisvar sinnum meira hnjask.