*

mánudagur, 2. ágúst 2021
Innlent 8. nóvember 2004 10:39

Ný og stórglæsileg setustofa í Leifsstöð

mætir fjölgun Saga Business Class farþega Icelandair

Ritstjórn

Icelandair hafa opnað nýja setustofu í Leifsstöð til að auka og bæta þjónustu við ört vaxandi hóp Saga Business Class farþega félagsins. Setustofan er rúmlega tvöfalt stærri en sú sem notuð hefur verið undanfarin ár, alls um 570 fermetrar og er með henni brotið blað í þjónustu við flugfarþega á Íslandi. Fullkominn tæknibúnaður, góður viðgjörningur í mat og drykk og fjölbreytt aðstaða til vinnu, slökunar og afþreyingar einkenna nýju setustofuna í Leifsstöð.

"Með verulegri lækkun viðskiptafargjalda okkar hefur farþegum fjölgað stórlega á Saga Business Class og með þessari setustofu sem án vafa er ein sú glæsilegasta í Evrópu erum við að mæta þeirri fjölgun og auka þjónustu við farþegana", segir María Rún Hafliðadóttir, forstöðumaður viðskiptavinaþjónustu Icelandair í tilkynningu félagsins.

Farþegum á Saga Business Class farrými Icelandair stendur til boða margskonar þjónusta fyrir flug auk betri sæta, veitinga og afþreyingar um borð í vélum félagsins. Þar á meðal er sér innritun og aðgangur að betri setustofum á fjölmörgum flugvöllum. "Við hönnun nýju setustofunnar var tekið mið af þörfum viðskiptavina um rúmgóðan vel hannaðan stað, þar sem allir eiga að finna umhverfi við hæfi, hvort sem fólk sækist eftir kyrrð og rólegheitum eða líflegra umhverfi. Allur tækni- og samskiptabúnaður er fyrsta flokks, þráðlaus internettenging í öllu rýminu, mikið úrval afþreyingarefnis, læsanlegar farangursgeymslur, stór og þægileg snyrtiaðstaða með góðum steypiböðum og góðar veitingar. Meðal nýjunga má nefna mjög góða fundaaðstöðu sem fyrirtæki geta nýtt til fundahalda, t.d. með viðskiptavinum sem koma til landsins bæði frá Bandaríkjunum og Evrópu og hafa aðeins viðdvöl hér á landi í nokkrar klukkustundir," segir María Rún.

Nýja setustofan er norðanmegin í suðurbyggingunni í Leifsstöð, í námunda við vegabréfaeftirlitið. Staðsetning hennar er mjög miðsvæðis og öll brottfararhlið innan seilingar. Við hönnun, sem arkitektastofan Form og Rými annaðist, var leitast við að skapa afslappað umhverfi með skírskotun til norrænnar hönnunar og menningar, til að undirstrika stöðu Icelandair sem norræns hágæða flugfélags. "Setustofan skiptist í nokkur rými, t.d. fallega bari og veitingaaðstöðu, vinnuaðstöðu, mjög fallega arinstofu og fleira. Bókasafn verður í arinstofu þar sem farþegar geta flett upp í bókum um Ísland, t.d. Íslendingasögunum, Eddukvæðum og Hávamálum á fjölmörgum tungumálum," segir María Rún.

Í tilefni af opnun setustofunnar mun myndlistarmaðurinn Tolli opna þar sýningu á nýjum verkum, en gert er ráð fyrir að þar verði að jafnaði sýningar áhugaverðustu myndlistarmanna samtímans. Sýningin er sölusýning og munu 10% af andvirði verkanna renna til Vildarbarna, ferðasjóðs Icelandair og viðskiptavina félagsins fyrir langveik börn og börn sem búa við sérstakar aðstæður.