„Ákveðnar stærðartakmarkanir koma í veg fyrir byggingu lítilla og ódýrari íbúða, til að mynda fyrir námsmenn eða inn á leigumarkaðinn, sem kallar eftir íbúðum fyrir þá sem eru að leita að fyrstu íbúð,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. Í Morgunblaðinu í dag segir að vinnuhópar vinni að því á vegum ráðuneytis hans að endurskoðun byggingarreglugerðar. Ný byggingarreglugerð hefur þótt íþyngjandi.

Sigurður segir í samtali við blaðið að þegar ný byggingarreglugerð hafi komið fyrst fram þá hafi hún aukið byggingarkostnað verulega og margvíslegar íþyngjandi kvaðir verið settar á. Margt sé búið að laga. Í raun hafi reglugerðin verið í endurskoðun frá því að hún kom fyrst fram.

„Ég tel að hægt sé að koma þessu fyrir í reglugerðinni, eins og aðrar norrænar þjóðir hafa gert, án þess að skerða grundvallarmannréttindi  um aðgengi fyrir alla. Í sumum tilvikum hefur þetta verið gert með því að búa til mismunandi flokka af íbúðum með mismunandi kröfum,“ segir ráðherra.