Næstfátækasta ríki Evrópusambandsins, Rúmenía, býst nú við að ný ríkisstjórn sósíaldemókrata taki við valdataumunum á næstu dögum.

Kosningar voru haldnar í landinu 11. desember síðastliðinn þar sem sósíaldemókrataflokkurinn PSD hlaut 46% atkvæða en frjálslyndi flokkurinn ALDE hlaut 6%.

PSD nýtur stuðning margra sem sjá eftir því sem þeim finnst hafa verið öryggi kommúnistatímans, sérstaklega ellilífeyrisþega, atvinnulausra og bótaþega.

Leiðtoginn óhæfur vegna dóms

Leiðtogi flokksins, Liviu Dragnea, þurfti að segja af sér fyrir um ári síðan vegna hneykslismála og má hann ekki taka við forsætisráðherraembættinu næstu tvö árin vegna skilorðsbundins dóms sem hann þarf að sitja af sér.

Boðaði flokkurinn fyrst að forsætisráðherraefni sitt yrði Sevil Shhaideh, en hún hefði orðið fyrsti kvenkyns múslimski forsætisráðherra Evrópusambandsríkis í sögunni.

Tilnefning hennar ýtti undir þær getgátur að Dragnea ætlaði sér að stjórna í gegnum hana, en hún er af mörgum talin tiltölulega óreynd.

Skattalækkanir og aukin útgjöld

Nú er búist við að ný ríkisstjórn undir forystu Sorin Grindeanu taki við 4. janúar næstkomandi, en ríkisstjórn hans stefnir að hvoru tveggja skattalækkunum og auknum útgjöldum.

„Ég mun byggja umboð mitt á tveim grundvallaratriðum, ábyrgð og hófsemd," sagði Grindeanu í sameiginlegri yfirlýsingu með flokksformanninum Dragnea.

„Ég mun vinna mjög náið með flokksformanninum því hann þekkir stjórnarstefnuna best og hann ætti skilið að vera forsætisráðherra."