Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, telur að ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokksins taki við á ríkisráðsfundi á fimmtudaginn að því er RÚV greinir frá.

Veitti Guðni Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstri grænna formlega stjórnarmyndunarumboð sitt á fundi þeirra á Bessastöðum í dag, en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um var gert ráð fyrir að viðræðunum ljúki í gær eða fyrradag.

Flokkarnir munu næstu daga funda hver í sínu lagi með stofnunum sínum en eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá munu þingflokkar flokkanna funda klukkan 13:00 í dag.

Guðni segir að stofnanir flokkanna muni á morgun greiða atkvæði um fyrirliggjandi stjórnarsáttmála flokkanna á morgun. „Þá er um það samkomulag að styðji flokkstofnanir fyrirhugað stjórnarsamstarf, verði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra,“ segir Guðni.

„Yfirleitt hefur verið þannig um hnútana búið í stjórnarmyndunarviðræðum að einhver flokksformaður fái umboð forseta til þess að stýra þeim. Það verklag er þó alls ekki algilt, og í þetta sinn varð niðurstaðan sú að heillavænlegast væri að formennirnir þrír leiddu viðræður án þess að einn réði för.

Venja og hefð kveður hins vegar á um að við lyktir samninga um myndun nýrrar stjórnar hafi einn flokksleiðtogi stjórnarmyndunarumboð á hendi. Af þeim sökum fékk Katrín Jakobsdóttir umboðið hér í dag, væntanlegur forsætisráðherra nýrrar stjórnar, ef að líkum lætur.“