Ríkisstjórn Ítalíu hefur heitið því að gerar breytingar á fjárlögum fyrir árið 2007, en ríkisstjórnin hefur sætt mikilli gagnrýni fyrir að hækka skatta og gera ekki efnahagslegar umbætur, segir í frétt Financial Times.

Fjármálaráðherra Ítalíu, Tommaso Padoa Schioppa, kynnti frumvarpið á viðskiptaráðstefnu í vikunnui og fékk mikla gagnrýni frá valdamiklum aðilum viðskiptalífsins. Forsætisráðherra Ítalíu, Romano Prodi, segir að breytingar og leiðréttingar verði gerðar á frumvarpinu, en ljóst sé að meginmarkmiðum frumvarpsins verði ekki breytt.

Samkvæmt fjárlögunum mun 1.280 milljörðum varið í að minnka halla ríkissjóðs í 2,8% af vergri þjóðarframleiðslu, en nú nemur hann 4,8%. Hagfræðingar og aðilar viðskiptalífsins segja að fjárlögin geri ekki nóg til að minnka óhóflega eyðslu ríkisins, geri of lítið til að bæta samkeppnisumhverfið á Ítalíu, en vinstrisinnaður stjórnmálaflokkur Prodi kynnti það sem meginatriði á stefnuskrá sinni í þingkosningunum í apríl síðastliðnum.

Það sem fer hvað mest fyrir brjóstið á vinnuveitendum er ákvæði sem skyldar fyrirtæki til að greiða til eftirlaunakerfis ríkisins um fimm milljarða evra úr sjóðum sem ætlaðir eru til uppsagnabóta. Þetta hefur vakið mikla reiði smærri fyrirtækja með fáa starfsmenn, sem óttast að geta ekki staðið við skyldur sínar hvað varðar uppsagnabætur. Padoa Schioppa segist taka mótmælin til greina og að umbætur verði gerðar til að koma til móts við þau.

Það er reyndar óvíst hvort ákvæðið stenst löggjöf Evrópusambandsins, en Padoa-Schioppa segir að hann muni ekki víkja frá stefnu ríkisstjórnarinnar um að minnka halla ríkissjóðsins í 2,8% af vergri þjóðarframleiðslu undir neinum kringumstæðum.