*

mánudagur, 26. júlí 2021
Innlent 9. janúar 2017 13:25

Stjórnarsáttmáli kynntur á morgun

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að hann búist við því að nýr stjórnarsáttmáli verði kynntur á morgun.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar verður kynnt á morgun. Stjórnarsáttmáli sem hefur verið komið sér saman um verður kynntur fyrir flokksstofnunum Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar í kvöld.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, staðfestir að stjórnarsáttmálinn verði kynntur á morgun. „Ég gerir frekar ráð fyrir því að við munum kynna stjórnarsáttmálann á morgun.“ Nokkur óvissa er um innihald sáttmálans, en eins og Viðskiptablaðið hefur áður gert að umfjöllunarefni sínu, er líklegt að Evrópumálin verði að öllum líkindum sett til hliðar að minnsta kosti til lok kjörtímabilsins.

Bjarni fundar í dag með þingmönnum Sjálfstæðisflokksins að hans sögn. Líklegt er að hann fari yfir innihald stjórnarsáttmálans með þeim sem og skiptingu ráðuneyta.

Samkvæmt fréttaflutningi af stjórnarmyndunarviðræðum eru allar líkur á því að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, verði nýr forsætisráðherra ríkisstjórnarinnar. Jafnframt er líklegt að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins verði fimm talsins og að forseti Alþingis komi úr röðum Sjálfstæðismanna. Einnig hefur verið leitt líkum að því að þrír ráðherra ríkisstjórnarinnar komi úr röðum Viðreisnar og tveir úr röðum Bjartrar framtíðar.