Ný ríkisstjórn undir forystu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins, mun að öllu óbreyttu taka við völdum á fimmtudag. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur munu í fyrramálið kynna stefnuskrá nýrrar ríkisstjórnar en fyrir þann fund mun Sigmundur Davíð ganga á fund forseta Íslands og upplýsa hann um stöðu mála en Sigmundur Davíð er sem kunnugt er handhafi umboðs forseta um myndun nýrrar ríkisstjórnar.

Stefnt er að því að ríkisráðsfundur verði haldin á Bessastöðum rétt undir hádegi á fimmtudag og að ný ríkisstjórn taki við völdu á fimmtudagseftirmiðdag. Þá er jafnframt stefnt að því að boða Alþingi saman eftir um tvær vikur til að kjósa í nefndir og skipta verkum með þingmönnum.

Stefnuyfirlýsing flokkanna voru samþykktar af flokksráði Sjálfstæðisflokksins og miðstjórn Framsóknarflokksins fyrr í kvöld. Til stendur að fjölga ráðherrum um einn en halda fjölda ráðuneyta óbreyttum. Þannig munu tveir ráðherrar (úr sitthvorum flokknum) sitja í atvinnuvegaráðuneytinu og tveir ráðherrar í velferðarráðuneytinu.

Sigmundur Davíð verður sem fyrr segir forsætisráðherra í nýrri ríkisstjórn. Að öðru leyti mun Framsóknarflokkurinn fá í sínar hendur utanríkisráðuneytið. Þá mun einn ráðherra sitja sem félagsmálaráðherra í velferðarráðuneytinu og einn ráðherra sitja sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í atvinnuvegaráðuneytinu. Sá ráðherra mun jafnframt gegna stöðu umhverfisráðherra. Alls munu þannig fjórir ráðherra Framsóknarflokksins sitja í ríkisstjórn.

Sjálfstæðisflokkurinn mun aftur á móti fá fimm ráðherra í ríkisstjórn. Flokkurinn mun fara fyrir fjármálaráðuneytinu auk þess sem hluti af þeim málum sem snúa að fjármálamörkuðum munu færast til þess ráðuneytis. Talið er að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, verði fjármálaráðherra. Þá mun Sjálfstæðisflokkurinn einnig fá í sínar hendur innanríkisráðuneytið sem og menntamálaráðuneytið. Þá mun einn ráðherra sitja sem heilbrigðisráðherra í velferðarráðuneytinu og annar ráðherra sitja sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra í atvinnuvegaráðuneytinu.

Fyrir utan þetta allt saman mun Sjálfstæðisflokkurinn gera tillögu að forseta Alþingis.