„Það er talað um mikilvægi þess í stjórnarsáttmálanum að flytja opinber störf út á land,“ segir Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra, í samtali við Fréttablaðið. Þar kemur fram að allar líkur séu á að ný stjórnsýslustofnun sem á að taka yfir málefni Barnaverndarstofu, Fjölmenningarseturs og réttargæslumanna fatlaðs fólks verði staðsett á landsbyggðinni.

Eygló hefur skipað nefnd til að endurskoða stjórnsýslu á sviði félagsþjónustu og barnaverndar. Þóroddur Bjarnason, formaður stjórnar Byggðastofnunar, er formaður nefndarinnar. Segir hann að stefna eigi að því að draga úr ójafnri dreifingu ríkisstarfa um landið samkvæmt byggðaáætlun ríkisstjórnarinnar. „Þetta hefur náttúrlega verið töluvert í umræðunni. Menn hafa talað um að það sé auðveldara að gera það með nýjar stofnanir en gamlar. Hér er auðvitað ný stofnun á ferðinni og augljóst mál að það þarf að skoða það hvort þetta sé dæmi um nýja stofnun sem gæti verið annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu. Það er alls ekki víst og það þarf að tala við alla aðila og kanna málið vandlega,“ segir Þóroddur í samtali við Fréttablaðið.