„Hugmyndin er að hjálpa fólki að halda veislu með lítilli fyrirhöfn,“ segir Viktor Örn Andrésson. „Í Sælkerabúðinni munum við bjóða upp á vörur úr gæðahráefni með sérstaka áherslu á kjötvörur og lúxusmeðlæti. Við verðum líka með flottar og einfaldar lausnir fyrir heimili, minni hópa og grænkera.“ Sælkerabúðin er við Bitruháls 2 í Árbæ.

Viktor Örn er landsþekktur kokkur, sem unnið hefur til gull- og silfurverðlauna með kokkalandsliðinu. Hann var matreiðslumaður ársins hér á landi árið 2013 og matreiðslumeistari Norðurlanda árið eftir. Um árabil starfaði hann á veitingastaðnum Lava í Bláa Lóninu og um tíma á Michelin -stjörnu staðnum Domaine de Clairfontaine í Lyon í Frakklandi.

Þeir félagar Viktor Örn og Hinrik Örn Lárusson kynntust fyrir nokkrum árum þegar Viktor Örn var að undirbúa sig fyrir Bocuse d’Or matreiðslukeppnina, sem haldin var í byrjun árs 2017. Fékk hann Hinrik Örn, sem þá var ungur matreiðslunemi, til að aðstoða sig í keppninni. Árangurinn var einstakur því þeir félagar lentu í 3. sæti, sem er besti árangur sem Ísland hefur náð í þessari virtustu matreiðslukeppni heims.

„Þetta gekk svo vel að við ákváðum að halda samstarfinu áfram,“ segir Viktor Örn. „Við höfum rekið veisluþjónustuna Lux veitingar í nokkur ár en í fyrra ákváðum við að taka eitt skref í viðbót og opna sælkerabúð. Við byrjuðum undirbúninginn af krafti í janúar en síðan kom faraldurinn, sem auðvitað setti strik í reikninginn. Það var annaðhvort að hætta við eða halda áfram. Við erum ungir menn og ákváðum auðvitað að halda áfram.“

Truflu kartöflu- terrine

Viktor Örn segir að mikil áhersla verði lögð á að vera með glæsilegt kjötborð.

„Við verðum með allt til alls til að halda góða veislu. Ef fólk við vill hefðbundið meðlæti eins og bakaðar kartöflur eða „ hasselback “ kartöflur þá verður slíkt auðvitað í boði en fyrir þá sem vilja prófa eitthvað nýtt þá verðum við til dæmis með truflu kartöflu- terrine og margt fleira. Við verðum með gott úrval af sósum, sem við gerum sjálfir. Þeir sem vilja hafa lítið fyrir hlutunum geta síðan pantað hjá okkur tilbúna veislu. Þá er búið að elda kjötið og það eina sem þarf að gera er að leggja á borð og hita það upp. Samskonar pakkar verða í boði fyrir fólk sem er á leið í bústaðinn nema þá verður ekki búið að elda kjötið.

Síðan verður ýmislegt annað í boði eins og gæða skinkur og pylsur. Ég nefni til dæmis Iberico - skinkur og chorizo -pylsur. Einnig úrval af ostum, sultum og pestó, sem við gerum sjálfir.

Lifandi eldhús

Inn af Sælkerabúðinni verður það sem Viktor Örn kallar lifandi eldhús. „Það er glæsilegt fjölnota rými fyrir 10 til 15 manns, innréttað eins og heimiliseldhús. Þar verðum við með matreiðslunámskeið, vínsmökkun og kjötsmökkun — í raun eru möguleikarnir endalausir. Einnig munum við bjóða minni hópum, til dæmis frá fyrirtækjum, til að koma og halda léttan fund og fá síðan góða máltíð í kjölfarið.

Sælkerabúðin verður opin frá klukkan 11 til 19 fimm daga vikunnar eða frá miðvikudögum til sunnudags. Samfara opnun búðarinnar verður ný vefsíða, saelkerabudin . is , sett í loftið í dag en á henni verður hægt að skoða úrvalið og panta mat til þess að sækja eða fá sent heim.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .