*

föstudagur, 19. júlí 2019
Innlent 3. desember 2016 16:00

Ný samantekt á fiskveiðistjórnun í Færeyjum

SFS hafa útbúið samantekt á færeyskri skýrslu um fiskveiðistjórnunarkerfi Færeyinga og endurskoðun þess, auk þess sem kerfið er sett í samhengi við stöðuna á Íslandi.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) hafa útbúið samantekt á helstu niðurstöðum skýrslu færeysku ríkisstjórnarinnar á fiskveiðistjórnunarkerfi Færeyinga („Ein Nýggj og varðandi fiskvinnuskipan fyri Føroyar“).

Færeyska skýrslan, sem kom út fyrir nokkru, fjallar um ýmsa þætti kerfisins og vandamál sem greinin stendur frammi fyrir, auk þess sem tilraunir Færeyinga með uppboð, á afmörkuðum hluta aflaheimilda í uppsjávartegundum og botnfiski í Barentshafi, eru til umræðu.

Skýrsla SFS, sem ber heitið „Endurskoðun á fiskveiðistjórnun í Færeyjum“, er unnin af Hallveigu Ólafsdóttur, hagfræðingi samtakanna, og Steinari Inga Matthíassyni, sérfræðingi SFS í utanríkismálum. Samantektin inniheldur helstu niðurstöður skýrslu færeysku ríkisstjórnarinnar og eru þær settar í samhengi við stöðuna á Íslandi.

Í tilkynningu SFS segir: „Sjávarútvegur er ein grundvallarstoð íslensks atvinnulífs. Það er mikilvægt að umræða um breytingar á jafn veigamiklum þætti samfélagsins byggi á bestu fáanlegu upplýsingum.“

Flestar af þeim tillögum sem lagðar eru til að verði gerðar í Færeyjum hafa þegar komið til framkvæmda á Íslandi. Íslendingar hafa fylgst með fyrrgreindum tilraunum með uppboð aflaheimilda. Af uppboðum í ár fékk færeyska ríkið því sem samsvarar um 740 milljónir íslenskra króna. Tekjur íslenska ríkisins af veiðigjöldum eru áætlaðar um 8 milljarðar króna árið 2016. Í heild má gera ráð fyrir að gjaldtaka í færeyskum sjávarútvegi þetta árið verði um 2,7 milljarða íslenskra króna. Færeyskir sjómenn taka þátt í greiðslu þess kostnaðar að hluta.

Í færeysku skýrslunni er mælt með því að aflamarkskerfi verði tekið upp og að horfið verði frá sóknardagakerfi.

„Horfa Færeyingar þar sérstaklega til reynslu Íslendinga og þeim árangri sem náðst hefur hér á landi með upptöku slíks kerfis. Einnig er vikið að reynslu Íslendinga af takmörkunum á hámarksaflahlutdeild fyrirtækja, en hér á landi miðast hámarkið við 12% af úthlutuðum þorskígildum. Þá er sérstaklega að því vikið hvernig íslenskur sjávarútvegur hefur náð að auka verðmætasköpun með lóðréttri samþættingu, þar sem keðja veiða, vinnslu, sölu og markaðssetningar er óslitin,“ segir í tilkynningu SFS.

Hægt er að nálgast skýrsluna hér.

Stikkorð: Sjávarútvegur Færeyjar Færeyjar Færeyjar SFS