Kauphöllin hefur tilkynnt um nýja samsetningu Úrvalsvísitölu aðallista Kauphallarinnar sem mun gilda til næstu sex mánaða. Atorka Group sem skráð var í Kauphöllina í lok janúar ásamt færeyska olíufélaginu Atlantic petroleum koma ný inn í vísitöluna í stað Kögunnar og Flögu Group en bréf Kögunar voru afskráð nýlega vegna yfirtöku Dagsbrúnar. Vægi Atlantic Petroleum í vísitölunni verður 0,45% og vægi Atorku Group verður 1,18%. Samanlagt standa Viðskiptabankarnir þrír sem eru veltumestu félögin í Kauphöllinni fyrir 62,56% af vægi vísitölunnar.

Samsetning Úrvalsvísitölunnar er reiknuð með þeim hætti að litið er til síðustu tólf mánaða og þau 20 félög sem mest viðskipti hafa verið með er raðað eftir markaðsvirði leiðréttu fyrir floti. Þau 15 félög sem eru efst í þeirri uppröðun eru svo valin í vísitöluna svo framarlega að þau uppfylli skilyrði um verðbil og fréttakröfur. Öll félögin í vísitölunni ná þessum skilyrðum í þetta sinn.

Verðbil félaganna í Úrvalsvísitölunni má ekki veraa hærra en 1,5% í lok dags að meðaltali og fréttir og afkomutilkynningar verða að koma út samtímis á íslensku og ensku.

Þetta verður í síðasta sinn sem samsetning vísitölunnar verður reiknuð með þessum hætti þar sem ný aðferð verður tekin upp við útreikninga í lok árs sem ætlað er að auka seljanleika félaganna.