Ný sjónvarpsstöð, iSTV, mun hefja útsendingar klukkan átta í kvöld. Hægt verður að ná útsendingum stöðvarinnar í gegnum myndlykla Vodafone og Símans en í framtíðinni er einnig stefnt að því að senda út á netinu. Stöðin mun sýna sitt eigið efni og er með fjölda dagskrárgerðarmanna í vinnu.

Guðmundur Týr Þórarinsson, einnig þekktur sem Mummi í Mótorsmiðjunni, er dagskrárstjóri stöðvarinnar. Töluverð gerjun virðist vera á íslenska sjónvarpsmarkaðnum því einungis nokkrir mánuðir eru síðan stöðvarnar Mikligarður og Bravó fóru í loftið. Þær voru stofnaðar af Konunglega kvikmyndafélaginu en eftir tvo mánuði var öllu starfsfólki sagt upp og 365 tók yfir reksturinn. Mikligarður hefur nú lagt upp laupana en Bravó er enn í fullu fjöri.