Sjónvarpsstöðin Hringbraut hefur útsendingar í kvöld. Dagskrárstjóri er fjölmiðlamaðurinn og fyrrverandi þingmaðurinn Sigmundur Ernir Rúnarsson. Framkvæmdastjóri Hringbrautar og aðaleigandi stöðvarinnar er Guðmundur Örn Jóhannsson.

Í tilkynningu segir stöðin muni bjóða upp á íslenskt efni. Á meðal þess sem verður í boði eru viðtalsþættir og fréttaskýringar. Á meðal þáttastjórnenda verða Björk Eiðsdóttir, Hulda Bjarnadóttir, Karl Ágúst Úlfsson, Páll Magnússon, Rakel Garðarsdóttir, Sólveig Ólafsdóttir, Sigurður K. Kolbeinsson og Sigmundur Ernir.

Fyrst um sinn mun stöðin senda út nýtt efni á hverju kvöldi frá klukkan 21 til 22. Eftir þrjá mánuði er stefnt að því bjóða upp á nýtt efni í tvær klukkustundir á kvöldi. Allt efni Hringbrautar er í opinni dagskrá og sent út í háskerpu á rásum 7 hjá Símanum, 25 hjá Vodafone og 35 hjá Digital Ísland.

Í tilkynningu segir að stöðin muni "bjóða upp á upplýsandi, fróðlega og á stundum ögrandi sjónvarpsþætti um hitamálin heima og erlendis. Þáttastjórnendur á Hringbraut hafa allir ríka reynslu af fjölmiðlum og og munu jafn margar konur og karlar halda þar um taumana. Leiðarljós stöðvarinnar er mannvirðing, umburðarlyndi og jafnrétti en sérstök áhersla verður lögð á jafnt kynjahlutfall viðmælenda í öllum þáttum hennar. Fyrsti gestur Hringbrautar í kvöld er frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands."