Regus mun í nóvember næstkomandi opna nýjan skrifstofukjarna á Hafnartorgi. Þar verða starfræktar 46 skrifstofur og 3 fundarherbergi á þriðju hæð hússins. Regus er fyrirtæki sem rekur skrifstofukjarna á fjórum stöðum á Íslandi, í Ármúla 4-6, í Skútuvogi, á Höfðatorgi og á Akureyri. Skrifstofukjarninn á Hafnartorgi verður því sá fimmti í röðinni. Auk fyrrnefndra skrifstofa og fundarherbergja mun veitingaaðstaða og opin rými vera á svæðinu. Regus mun einnig bjóða upp á móttöku- og ritaraþjónustu fyrir húsnæðið.

Tómas Hilmar Ragnarz og  Fríða Rún Þórðardóttir eru eigendur fyrirtækisins. Fyrsti skrifstofukjarni fyrirtækisins var opnaður haustið 2014 undir merkjum Orange Project. Í mars 2017 undirritaði fyrirtækið svo samninga við alþjóðlega fyrirtækið Regus, sem rekur um 3.000 skrifstofukjarna í um 900 borgum í 120 löndum. Viðskiptavinir Regus á Íslandi geta nýtt allar þessar starfsstöðvar auk þess sem þeir hafa aðgang að 850 setustofum á flugvöllum víða um heim án þess að greiða aukalega fyrir það.

Allt til alls á Hafnartorgi

Tómas Hilmar, sem er framkvæmdastjóri Regus, segir að skrifstofukjarninn á Hafnartorgi sé fyrsti skrifstofukjarninn sem fyrirtækið setur upp eftir alþjóðlegum stöðlum Regus og var hann því sérsmíðaður í kringum skrifstofukjarnahugsun Regus.

„Hugsunin á bak við þetta er sú að íslensk fyrirtæki og einnig alþjóðleg fyrirtæki sem koma með starfsstöðvar til Íslands til lengri eða skemmri tíma, geti nýtt sér þennan skrifstofukjarna. Hafnartorg er mjög vel staðsett í hjarta Reykjavíkur. Svæðið er því mjög spennandi fyrir allar mögulegar tegundir fyrirtækja, með allar helstu stjórnsýslubyggingar í nágrenni, ógrynni annarra fyrirtækja, veitingastaða, hótela, kaffihúsa og verslana. Þungamiðja menningar er einnig á svæðinu og mikil nálægð við Hörpuna. Það er því allt til alls á þessu svæði í kringum Hafnartorg. Nú þegar er orðin nokkur eftirspurn bæði innanlands og erlendis frá, eftir aðstöðu í húsinu á Hafnartorgi og við munum byrja að taka frá rými í húsinu á næstu dögum. Einnig eru nú þegar alþjóðleg fyrirtæki byrjuð að sýna staðsetningunni áhuga til að opna starfsstöðvar.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Umfjöllun um stöðu sjávarútvegsins
  • Viðtal við stjórnarfomann Frjálsa lífeyrissjóðsins
  • Úttekt á framtíðarhorfum í íslensku hagkerfi
  • Greining á gjaldeyristekjum þjóðarbúsins
  • Viðtal við umhverfisráðherra
  • Umfjöllun um framtíð fríhafnarinnar
  • Fjallað er um landvinninga í Asíu
  • Þemasíða um Ryder bikarinn sem fer fram um helgina.
  • Óðinn skrifar nýja hrunskýrslu Hannesar Hólmsteins
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað.
  • Týr fjallar um metoo og Orkuveitu Reykjavíkur.