Olíuverð gæti farið yfir 200 dali á næstu árum samkvæmt nýrri skýrslu bresku hagrannsóknarstofnunarinnar Chatham House.

Framboðskreppa mun samkvæmt skýrslunni hafa áhrif á markaðinn á næstu 5-10 árum. Þrátt fyrir að næga olíu sé að finna í jörðu niðri hafa fyrirtæki og stjórnvöld ekki fjárfest nægilega mikið í framleiðslutækjum til að tryggja framleiðsluna.

Aðeins hrun í eftirspurn getur komið í veg fyrir yfirvofandi olíukreppu, segir í skýrslunni. Jafnvel þó svo að mikill samdráttur ylli slíku hruni væri það þó aðeins frestun á vandamálinu.

Í skýrslunni segir að olíufyrirtæki skili of miklu af sínum hagnaði til hluthafa, þegar þau ættu frekar að nýta fjármagnið til að fjárfesta í aukinni framleiðslugetu.

Í lokaorðum skýrslunnar segir að eingöngu róttæk pólitísk stefnubreyting geti aukið birgðir og lækkað olíuverð, en það sé líklega pólitískt óvinsælt.

Olíuverð hefur lækkað um 3,4% í dag og kostar tunnan nú 116,0 Bandaríkjadali.