Deutsche Bank mun senda frá sér nýja skýrslu um íslensku bankana og er hún væntanleg á morgun, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Heimildarmenn blaðsins segja að jákvæður tónn sé í skýrslunni. Skýrsla Deutsche Bank fylgir fast á eftir skýrslu franska bankans Societe Generale (SG), sem segir íslensku bankana nógu sterka til að "standa af sér óveðrið."

SG gefur Glitni og Landsbankanum "stöðuga" lánshæfiseinkunn næstu sex mánuði, en Kaupþingi "neikvæða".

"Þótt við höfum áhyggjur af möguleikum Glitnis og Landsbanka á að afla lánsfjár í framtíðinni á þokkalegum kjörum, er ráðlegging okkar byggð á þeirri skoðun okkar að þessir bankar geta sem stendur staðið af sér töluverðan samdrátt í íslensku efnahagslífi, vegna góðrar eiginfjárstöðu og hagnaðar," segir í skýrslu SG.

Þá segir að bankinn telji að Kaupþing verði áfram rekið með góðum hagnaði, þótt það hafi lægra eiginfjárhlutfall en keppinautarnir og að eigin fé þess virðist vera viðkvæmast fyrir sveiflum í hlutafjárverði.

"Eins og stendur teljum við að allir bankarnir þrír hafi nægan seljanleika til að vega á móti nokkurri fjármögnunaráhættu. Hins vegar teljum við að vel sé í lagt hjá Moody's og Fitch með því að gefa þeim A lánshæfismat, vegna þess að með því er gert ráð fyrir stuðningi hins opinbera," segir í skýrslunni.

"Þegar litið er framhjá því teljum við að Landsbanki og Kaupþing séu nær hárri BBB [einkunn] og Glitnir sennilega lágri A. Þegar skýrsla þessi var skrifuð gaf S&P Glitni A-, sem virðist ekki gera ráð fyrir stuðningi hins opinbera."