Hyundai virðist vera að gera það gott í Bandaríkjunum með nýjum Sonata GLS og skákar mörgum helstu keppinautunum. The Detroit News segir að ýmsir bílaframleiðendur hafi í nokkur ár reynt að skáka Toyota Camry og Honda Accord sem trónað hafa á stalli sem söluhæstu millistæðar bílarnir.

Segir blaðið að Ford Motor Co. hafi endurhannað Ford Fusion í þessu skyni og General Mortors Co. hafi komið með örlítið endurbættan Chevrolet Malibu. Það sé hinsvegar Hyundai sem komi öflugast inn með nýjan Sonata GLS sem seldur er með 10 ára ábyrgð eða 100.000 mílna akstri. Í ágúst hafi selst 21.399 Sonata bílar sem hafi skákað sölunni á Fusion, Malibu og einnig Nissan Altima. Er það helmingi meiri sala en var á eldri gerð Sonata í fyrra. Toyota er sem fyrr á toppnum með sölu á 30.000 Camry bílum og Honda kemur þar á eftir með 22.506 bíla.

Hyundai og systurfyrirtækið Kia hafa verið að auka sína hlutdeild samanlagt á Bandaríkjamarkaði úr 5,1% í 7,8%. Segir blaðið að ein helsta ógn Hyundai í markaðssókninni komi einmitt frá systurfélaginu Kia sem hefur verið að gera það gott með Optima bíl sínum.