Gossprunga opnaðist um hádegisbil við eldgosið í Geldingadölum. Unnið er að rýmingu gossvæðisins á meðan staðan er metin. Þyrlur Landhelgisgæslunnar hafa meðal annars verið kallaðar út til að aðstoða við rýmingu.

Jörðin opnaðist nú skammt frá þeim stað sem gosið hefur undanfarnar vikur eða um 500 metra í norðaustur frá hinu nýja hrauni. Í morgun hafði hrauntjörn við fyrri gígana tekið að lækka og skömmu síðar opnaðist jörðin á nýjum stað. Nokkuð var af fólki á svæðinu þegar gosið hófst og röltu nokkrir nær til að kanna hina nýju hraunuppsprettu. Samkvæmt upplýsingum Veðurstofunnar virðist sem tvær sprungur séu þarna á ferð, hvor um sig um 200 metrar að lengd.

Á vef mbl.is er haft eftir Páli Einarssyni jarðeðlisfræðingi að um sé að ræða sömu sprungu og gosið hafi úr undanfarið, hún kvikan sé aðeins að ýta sér upp á öðrum stað. Um óskaplega lítið gos sé að ræða.

Landhelgisgæslan hefur birt myndir af sprungunni eftir yfirlitsflug þyrlu Landhelgisgæslunnar yfir svæðið.

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar aðstoðar nú lögregluna á Suðurnesjum við rýmingu við gosstöðvarnar í Geldingadölum. Meðfylgjandi myndir voru teknar af nýju sprungunni þegar flogið var yfir svæðið.

Posted by Landhelgisgæsla Íslands/Icelandic Coast Guard on Monday, 5 April 2021