Starfsemi IMG á Akureyri flyst í húsnæði KEA við Glerárgötu 36 um mitt ár 2006. Samkomulag fyrirtækjanna þar að lútandi var undirritað 1. mars síðastliðin. Samhliða flutningunum mun IMG auka starfsemi og fjölga störfum á Akureyri.

IMG er stærsta rannsóknar-, ráðgjafar- og ráðningarfyrirtæki landsins. IMG opnaði skrifstofu sína á Akureyri í marsmánuði árið 1998 og hafa starfsstöðvar fyrirtækisins verið við Skipagötu 16 allar götur síðan.
?Það hefur verið ljóst um nokkurt skeið að sú aðstaða sem IMG býr við á Akureyri er orðin of lítil, hentar starfsemi fyrirtækisins ekki nógu vel og hefur heft möguleika á fjölgun verkefna," segir Einar Einarsson, framkvæmdastjóri rannsóknarsviðs IMG í frétt á heimasíðu KEA.

IMG á Akureyri hefur boðið upp á þjónustu í ráðningum, markaðs- og viðhorfsrannsóknum, auk þess að sinna ráðgjafarverkefnum og námskeiðahaldi í samvinnu við IMG í Reykjavík. Annað tveggja úthringivera IMG Gallup er á Akureyri og er horft til þess að stækka það um allt að helming sem og að bæta við verkefnum með tilkomu stærra og hentugra húsnæðis.

Framundan er stefnumótunarvinna um framtíðarskipulag með það að markmiði að efla og bæta enn öfluga starfsemi IMG á Akureyri.
KEA festi kaup á húnæðinu við Glerárgötu 36 í apríl síðastliðnum og hefur verið ákveðið að ráðst í nokkrar framkvæmdir við endurbætur á því á næstu mánuðum. Auk þess sem starfsemi IMG flyst á eina hæð í húsinu er stefnt að því að KEA flytji aðsetur sitt þangað.

Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri KEA, segist horfa björtum augum til þess samstarfs sem nú hefur verið lagður grunnur að með IMG. ?Það er líka afar ánægjulegt að fyrirtæki sem hafa fram að þessu byggt upp starfsemi sína á höfuðborgarasvæðinu eru nú að auka umsvif sín hér og flytja hingað verkefni í auknum mæli og ég vona að þetta verði upphafið að einhverju meiru í þessa veru," segir Halldór og bætir við að slíkt falli vel að þeim markmiðum sem KEA hafi um eflingu atvinnulífs á starfssvæðinu.