*

sunnudagur, 12. júlí 2020
Innlent 23. október 2019 11:17

Ný stefna fyrir íslenskan útflutning

Niðurstaða stefnumótunarvinnu stjórnvalda og atvinnulífs fyrir íslenskan útflutning kynnt í dag.

Ritstjórn
Sjálfbærni er samnefnarinn í nýrri framtíðarstefnu fyrir íslenskan útflutning.
Haraldur Guðjónsson

Sjálfbærni er samnefnari sex stefnumarkandi áherslna í nýrri framtíðarstefnu sem samþykkt hefur verið af Útflutnings- og markaðsráði og unnin hefur verið í breiðu samráði við útflutningsfyrirtæki um land allt. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Íslandsstofu sem hefur haft umsjón með stefnumótuninni, en niðurstaða hennar verður kynnt á fundi á Hilton Reykjavík Nordida í dag klukkan þrjú. 

Áherslurnar sex spanna vítt svið í íslensku atvinnulífi, snerta bæði hina hefðbundnu útflutningsatvinnuvegi en ná einnig til greina á borð við skapandi greinar, hugvit, nýsköpun og tækni. Áhersla verður lögð á eftirtalda sex flokka atvinnugreina:

1. Orka og grænar lausnir

2. Hugvit, nýsköpun og tækni

3. Listir og skapandi greinar

4. Ferðaþjónusta

5. Sjávarútvegur

6. Sérhæfð matvæli og náttúruafurðir

„Hefðbundnar útflutningsgreinar; sjávarútvegur, ferðaþjónusta og orkusækinn iðnaður byggja á traustum grunni og tækifæri þeirra felast ekki síst í því að auka virði vöru og þjónustu, meðal annars með öflugu markaðsstarfi. Menningarstarfsemi og skapandi greinar á Íslandi standa einnig framarlega í alþjóðlegum samanburði. Hugvitsdrifinn útflutningur tengdur nýsköpun og tækni á sér umtalsverð sóknarfæri og mikil gróska er í frumkvöðlastarfsemi.

Hluti þess verkefnis að móta langtímastefnu fyrir íslenskan útflutning var að þróa skýra mörkun fyrir Ísland og íslenskar útflutningsgreinar sem styður við miðlun á áhrifaríkum sögum sem skapa traust á landi og þjóð. Sterkur samhljómur var um það í stefnumótunarvinnunni að sjálfbærni væri samnefnari yfir áherslur Íslands í komandi markaðsstarfi. Framtíðarsýn stefnunnar er því að Ísland verði þekkt sem leiðandi land í sjálfbærni. Íslendingar hafa fjölmargar góðar sögur að segja á sviði sjálfbærni, s.s. á sviði orkuframleiðslu, fiskveiða og nýtingu hráefna.

Við skilgreiningu markaðssvæða íslenskra útflutningsvara reyndust hefðbundnir útflutningsmarkaðir Íslands ennþá vera mikilvægastir. Samhljómur var um að Norður-Ameríka, Vestur-Evrópa og Kína yrðu helstu áherslumarkaðir Íslands og stefnan sett á að sækja enn á þá markaði. Mikill samhljómur reyndist með ólíkum atvinnugreinum hvað þetta varðaði,“ segir í tilkynningu Íslandsstofu. 

„Við höfum lagt áherslu á samstarf við atvinnulífið og endurskipulag Íslandsstofu og nýtt útflutnings- og markaðsráð var þar lykilatriði. Það er því ánægjulegt að sjá þá skýru stefnu sem mörkuð hefur verið og við munum öll leggjast á eitt við að hrinda í framkvæmd. Það eru spennandi tímar fram undan,” er haft eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni, utanríkisráðherra, í tilkynningunni. 

„Markmið okkar undanfarið hefur annars vegar verið að kortleggja framtíðartækifæri Íslands til að auka útflutning og hagvöxt og hins vegar að gera áætlun um það hvernig Íslandsstofa getur unnið að því að þau markmið náist. Þetta hefur verið ánægjuleg og gefandi vinna, þar sem fjöldi fólk um land allt hefur komið að málum. Stefnan nú er skýr; fyrir liggur fyrir hvar sækja skuli fram og undir hvaða merkjum. Fram undan er að innleiða hana í öllu starfi Íslandsstofu – í þjónustu fyrir íslenskan útflutning og atvinnulíf,“ segir Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu, í tilkynningunni.