Búið er að setja upp nýja steypustöð á lóð Loftorku við Engjaás í Borgarnesi. Steypustöðin sem kemur frá Ítalíu var flutt til landsins í pörtum og þurfti til þess þrjátíu gáma. Stöðin var reist upp á steyptar undirstöður og öll uppsetning hefur gengið vel segir í frétt á heimasíðu Loftorku.

Um er að ræða turnstöð með tveimur tveggja og hálfs rúmmetra blöndurum og hægt er að framleiða í stöðinni um 150 rúmmetra af steypu á klukkustund. Í turninum eru sex sementssíló og sex malarsíló. Stöðin er mjög fullkomin og ein stærsta steypustöð landsins.

Verið er að gera prófanir og stilla af allan búnað en framleiðsla mun hefjast fyrir jól. Tilkoma stöðvarinnar mun leiða til aukinnar hagræðingar í verksmiðjum og styttri afgreiðslutíma á steypu.

Það er ljóst að nýja steypustöðin verður mikil lyftistöng fyrir framleiðsluna og hennar bíða næg verkefni á næsta ári þegar framleiðslupláss fyrir einingaframleiðsluna verður stækkað segir í frétt Loftorku.