Icelandair hyggst ráðast í endurnýjun á sætum í öllum Boeing 757 þotum félagsins, en um er að ræða fjárfestingu upp á rúma tvo milljarða króna að því er kom fram í ræðu stjórnarformanns félagsins, Gunnlaugs M. Sigmundssonar, á aðalfundi félagsins sem hófst fyrir stundu.

Í ræðu Gunnlaugs kom fram að byrjað verður að setja nýju sætin í vélarnar á næstu vikum, glæsileg leðursæti með skjá og afþreyingarbúnaði í sætisbaki. „Samhliða endurnýjun innréttinga verða kynntar ýmsar nýjungar sem eftir verður tekið og gefa ímynd félagsins nýjan og ferskan blæ, samhliða bættri þjónustu við viðskiptavini," sagði Gunnlaugur.