Á aðalfundi félagsins föstudaginn 15. maí síðastliðinn var kjörin ný stjórn Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga (FVH). Þrír nýir fulltrúar komu inn í stjórnina, viðskiptafræðingarnir Esther Finnbogadóttir og Gerða B. Hafsteinsdóttir, og Daði Már Kristófersson hagfræðingur.

Stjórn félagsins fyrir komandi starfsár er þannig skipuð að Auður Björk Guðmundsdóttir er formaður, Ágústa Jónsdóttir varaformaður, Arna Harðardóttir gjaldkeri og Benedikt K. Magnússon meðstjórnandi.   Formaður fræðslunefndar er Esther Finnbogadóttir, formaður kjaranefndar er Gerða B. Hafsteinsdóttir og formaður ritnefndar er Örn Valdimarsson.  Fulltrúi hagfræðinga í stjórninni er Daði Már Kristófersson, fulltrúi landsbyggðar er Helgi Gestsson og fulltrúi samstarfsfyrirtækis er Kristín Sigurðardóttir.

„Starf FVH hefur verið mjög öflugt undanfarin ár en félagið stendur reglulega fyrir fræðslufundum, fyrirlestrum og ráðstefnum sem hafa notið góðrar aðsóknar. Hlutverk FVH er að stuðla að því að félagsmenn og aðrir áhugamenn um viðskipta- og hagfræðileg málefni njóti fræðslu og endurmenntunar. Við leggjum áherslur á að efla kynni og tengsl félagsmanna og hlúum að kjörum þeirra með kjarakönnun sem framkvæmd er reglulega„ sagði Auður Björk.