Á dögunum var haldinn aðalfundur FKA Framtíðar og kosin stjórn fyrir næsta starfsár. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu en þar segir að FKA Framtíð sé deild innan Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA) sem leggi áherslu á að skapa vettvang fyrir félagskonur þar sem þær geti eflt hver aðra og byggt upp virkt og öflugt tengslanet.

„Hlutverk Framtíðarinnar er að vera leiðtogahvati fyrir konur í atvinnulífinu, styðja við einstaklingsþróun, skapa grundvöll til að deila reynslu og auka styrk sinn með innblæstri frá öðrum konum," segir Anna Björk Árnadóttir, nýskipaður formaður félagsins í tilkynningunni.

„Við leggjum áherslu á að leiða saman hóp af öflugum og fjölbreyttum konum sem efla hver aðra með ráðum og innblæstri. Allar konur hafa eitthvað fram að færa og við trúum því að saman erum við sterkari," bætir hún við.

Nýja stjórn FKA Framtíðar skipa:

  • Anna Björk Árnadóttir, framkvæmdastjóri/eigandi Eventum ehf.
  • Ásdís Auðunsdóttir, lögfræðingur og verkefnastjóri hjá Deloitte
  • Bergrún Lilja Sigurjónsdóttir, starfsþróunarstjóri VÍS
  • Katrín Petersen, sjálfstætt starfandi ráðgjafi
  • Rakel Lind Hauksdóttir, fjármála- og fjáröflunarstjóri SOS Barnaþorpanna
  • Thelma Kristín Kvaran, stjórnendaráðgjafi og meðeigandi hjá Intellecta
  • Unnur María Birgisdóttir, mannauðssérfræðingur Controlant