Aðalfundur Rekstrarfélags verðbréfasjóða ÍV var haldinn fyrir skemmstu, en á fundinum var nafni félagsins breytt í ÍV sjóði. Þá fór fram stjórnarkjör hjá félaginu.

„Arnbjörg Sigurðardóttir var endurkjörin stjórnarformaður félagsins. Einnig voru kjörnir Ingvar Gíslason, stjórnarmaður og Jón Steindór Árnason var kjörinn inn nýr í stjórn félagsins. Jón Steindór er framkvæmdastjóri Tækifæris fjárfestingafélags hf. og starfsmaður hjá Íslenskum verðbréfum hf. Hann er M.Sc. í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og B.Sc. í viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri," segir í tilkynningu frá ÍV sjóðum.

Enginn arður greiddur

Á fundi félagsins var tekin ákvörðun um að arður skyldi ekki greiddur fyrir árið 2014, en hagnaði yrði þess í stað ráðstafað til hækkunar eigin fjár.

Jón Helgi Pétursson, framkvæmdastjóri ÍV sjóða, sagði á fundinum að rekstur félagsins hefði gengið vel á árinu og umfang þess hafi aukist. Hreinar rekstrartekjur ársins námu 160 milljónum kr. samanborið við 130 milljónir króna. árið áður. Gjöld til móðurfélagsins námu um 80 milljónum króna og varð hagnaður á rekstri félagsins á árinu 2014 að fjárhæð 11 milljónir króna samkvæmt rekstrarreikningi.

ÍV sjóðir annast rekstur 17 sjóða og nema heildareignir í stýringu um 28 milljörðum króna.