Gestur Pétursson, forstjóri Veitna og Kristín Linda Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, voru í dag kjörnir fulltrúar sinna fyrirtækja í stjórn Samorku á aðalfundi samtakanna. Sigurður Þór Haraldsson, veitustjóri hjá Selfossveitum og Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku, voru einnig kjörnir í stjórn í fyrsta sinn. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Þá var Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, endurkjörinn í stjórn Samorku til næstu tveggja ára. Í stjórn sitja jafnframt áfram þau Helgi Jóhannesson, forstjóri Norðurorku, formaður stjórnar, og Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar, varaformaður stjórnar Samorku.

Þá tóku tveir nýir varamenn sæti í stjórn Samorku í dag; þau Arndís Ósk Ólafsdóttir, forstöðumaður hjá Veitum og Gunnar Hrafn Gunnarsson, framkvæmdastjóri Orkuveitu Húsavíkur. Þau Guðbjörg Marteinsdóttir, fjármálastjóri RARIK og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, voru endurkjörin varamenn í stjórn.

Aðalfundur Samorku var haldinn með óhefðbundnum hætti að þessu sinni í skugga COVID-19 faraldursins og fór fram í fjarfundi. Um varúðarráðstöfun var að ræða, enda eru aðildarfyrirtæki Samorku skilgreind sem mikilvægir innviðir í landinu.

Stjórn Samorku, að loknum aðalfundi 2020, skipa:

Aðalmenn:

  • Berglind Rán Ólafsdóttir, Orku náttúrunnar
  • Gestur Pétursson, Veitum
  • Guðmund­ur Ingi Ásmunds­son, Landsneti
  • Helgi Jó­hann­es­son, Norður­orku, formaður stjórn­ar
  • Kristín Linda Árnadóttir, Landsvirkjun
  • Sigurður Þór Haraldsson, Selfossveitum
  • Tómas Már Sigurðsson, HS Orku

Varamenn:

  • Arndís Ósk Ólafsdóttir, Veitum
  • Elías Jónatansson, Orkubúi Vestfjarða
  • Guðbjörg Marteinsdóttir, RARIK
  • Gunnar Hrafn Gunnarsson, Orkuveitu Húsavíkur
  • Hörður Arnarson, Landsvirkjun