Magma Energy Sweden A.B. hefur keypt hlut sveitarfélaganna í HS Orku þ.e. Reykjanesbæjar (0,66%), Grindavíkurbæjar (0,45%), Sveitarfélagsins Garðs (0,28%) og Sveitarfélagsins Voga (0,09%), er fram kemur í fréttatilkynningu HS orku.

Úr Reykjanesvirkjun, orkuveri HS Orku á Reykjanesi
Úr Reykjanesvirkjun, orkuveri HS Orku á Reykjanesi
© Hörður Kristjánsson (VB MYND/ HKR)
Þá hefur Magma selt Jarðvarma slhf, sem er nýstofnað samlagshlutafélag í eigu 14 lífeyrissjóða, 25% hlut í HS Orku hf. Jafnframt var samið um að Jarðvarmi hafi rétt til 10. febrúar 2012 til að kaupa nýtt hlutafé á ákveðnu verði þannig að eignarhluti Jarðvarma færi í 33,4%. Í kjölfarið af þessum breytingum var haldinn hluthafafundur 27. júní 2011.

Á fundinum var kjörin ný stjórn. Hana skipa Ásgeir Margeirsson, Ross Beaty, John Carson og Bruce Ripley til vara, frá Magma Energy Sweden A.B. Þá sitja í stjórn Gylfi Árnason, Anna Skúladóttir og Helgi Jóhannesson til vara, frá Jarðvarma slhf.

Ásgeir Margeirsson er stjórnarformaður, Ross Beaty varaformaður og Gylfi Árnason ritari.