*

laugardagur, 30. maí 2020
Innlent 17. október 2019 13:21

Ný stjórn í Almenna leigufélaginu

Fjórir nýir í stjórn Almenna leigufélagsins. Sjóðfélagar sagðir óánægðir með háan rekstrarkostnað.

Ritstjórn
María Björk Einarsdóttir er framkvæmdastjóri Almenna leigufélagsins.
Haraldur Guðjónsson

Fjórir nýir einstaklingar tóku sæti í stjórn Almenna leigufélagsins á dögunum, að því er kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Fimmti stjórnarmaðurinn gekk til liðs við stjórnina síðasta sumar og er því búið að skipta um alla stjórnarmenn á síðustu mánuðum og um nýja stjórn að ræða. 

Fráfarandi stjórnarmenn eru Ingvi Hrafn Óskarsson, fyrrum sjóðsstjóri hjá Novus, sem jafnframt var stjórnarformaður. Sölvi Blöndal, fyrrum efnahagsráðgjafi GAMMA; Berglind Ósk Guðmundsdóttir, ráðgjafi;  Anna Sigríður Arnardóttir, framkvæmdastjóri fasteignafélagsins Spildu. 

Ný stjórn er skipuð Ásgeiri Baldurs, fjárfestingastjóri hjá GAMMA, en hann gekk til liðs við stjórnina í sumar. Anna Rut Ágústsdóttir, starfsmaður Kviku banka, Hlíf Sturludóttir, viðskiptafræðingur; Einar Sigurðsson og Sigurjón Pálsson, framkvæmdastjóri PayAnalytics. 

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur verið vaxandi óánægja meðal sjóðfélaga með rekstur sjóðsins, sér í lagi hvað rekstrarkostnað varðar. Fyrir tilstilli óánægðra félaga var ákveðið að setja á fót fjárfestingaráð sem hafi það hlutverk að kortleggja næstu skref sjóðsins þar sem áform um að skrá félagið á hlutabréfamarkað hafi ekki gengið eftir. 

Samkvæmt árshlutareikningi Almenna leigufélagsins var rekstrarkostnaður félagsins 688 milljónir króna fyrstu sex mánuðina í ár sem er 90 milljónum krónum en á sama tímabili 2018. Erfiðara er að bera rekstrarkostnaðinn saman við tölur úr árshlutareikningi fyrstu sex mánuði ársins 2017 þar sem honum er skipt upp í annars vegar rekstrarkostnað fjárfestingareigna (377 milljónir króna) og hins vegar rekstrarkostnað (128 milljónir króna) sem samtals gera 505 milljónir króna.  

Stikkorð: leigufélagið Almenna