Pálmi Haraldsson segir í samtali við Viðskiptablaðið að núverandi eigendur Iceland Express muni rjúfa tengslin við félagið eins fljótt og auðið er vegna væntanlegra kaupa FL Group á Sterling.

Eignarhaldsfélagið Fons, sem stjórnað er af Pálma og Jóhannesi Kristinssyni, er aðaleigandi Sterling-flugsamstæðunnar og Iceland Express. Pálmi segir að Kaupþing banki hafi verið ráðinn til þess að finna kaupendur að Iceland Express.

Talið er að félagið sé metið á 3-4 milljarða króna en viðsnúningur hefur verið á rekstri félagsins og áætlað er að hagnaður á þessu ári nemi um 300 milljónum, eða um 10% af veltu. Áætlað er að 800 milljón króna hagnaður verði af rekstri Iceland Express á næsta ári.

Ný þriggja manna stjórn hefur verið mynduð og hana skipa lögmennirnir Einar Þór Sverrirsson, Hörður Felix Harðarsson og Gunnar Jónsson. Pálmi Haraldsson, Jóhannes Kristinsson, Haukur Alfreðsson og Almar Örn Hilmarsson eru því ekki lengur í stjórn Iceland Express.