Í framhaldi af kaupum danska verktakafyrirtækisins Per Aarsleff A/S á Ístaki Ísland hf hefur verið kjörin ný stjórn í félagið og ráðin nýr framkvæmdastjóri.

Stjórn félagsins skipa Kurt Carlsen stjórnarformaður, John Szygenda stjórnarmaður og Guðríður Lára Þrastardóttir stjórnarmaður.

Karl Andreassen verkfræðingur hefur tekið við, af Óskari Jósefssyni sem framkvæmdastjóri Ístaks Íslands hf. Karl hefur áralanga starfsreynslu í verktaka og byggingar starfsemi, bæði á Íslandi og erlendis. Sl. 4 ár hefur Karl haft yfirumsjón með starfsemi Per Aarsleff á Grænlandi, Færeyjum og á Íslandi. Stjórn Ístaks Íslands hf. þakkar Óskari fyrir hans starf, en hann var fenginn til að stýra félaginu í gegnum uppskiptingu þess og í gegnum erfiða umbrotatíma og býður Karl velkominn til starfa.

Per Aarsleff er stærsta verktakafyrirtæki Danmerkur, með starfsemi víða um heim. Hjá félaginu starfa um 4500 starfsmenn og velta félagsins var um 170 mia ISK á síðasta ári. Ístak Ísland hefur þ.a.l. sterkt bakland til að takast á við stór og flókin verktaka‐ og byggingarverkefni eins og félagið hefur gert í gegnum liðlega 40 ára sögu þess.