Ný stjórn var sjálfkjörin á aðalfundi Alfesca sem fram fór í gær, segir í tilkynningu.

Nýja stjórn skipa: Árni Tómasson, Bill Ronald, Guðmundur Ásgeirsson, Hartmut M. Krämer og Ólafur Ólafsson. Varamaður er Aðalsteinn Ingólfsson. Ólafur Ólafsson er formaður stjórnar Alfesca hf.

Guðmundur Hjaltason gaf ekki kost á sér til endurkjörs og Nadine Deswasiére lét af störfum sem stjórnarmaður í mars síðastliðnum. Nýir í stjórn eru Bill Ronald og Árni Tómasson.

Bill Ronald hefur umfangsmikla reynslu af smásöluverslun og stjórnunarstörfum á þeim vettvangi. Hann var forstjóri matvælaframleiðandans Uniq Plc á árunum 2002?2005 og þar áður hjá Mars Inc. í 30 ár.

Í dag er Bill Ronald starfandi stjórnarformaður hjá Bezier Ltd og óháður stjórnarmaður hjá Halfords Plc. Bezier er stærsti þjónustuaðili verslunargeirans í Bretlandi og selur m.a. hönnun og framleiðslu innréttinga fyrir verslanir. Halfords selur hjól, bíla og frístundavörur í 400 verslunum í Bretlandi.

Bill Ronald útskrifaðist sem tölfræðingur frá háskólanum í Glasgow 1978.

Árni Tómasson er löggiltur endurskoðandi og hefur víðtæka reynslu úr fjármálum og viðskiptalífi en hann hefur rekið eigið ráðgjafarfyrirtæki, AT-Ráðgjöf ehf., frá miðju ári 2003. Hann var framkvæmdastjóri í hlutastarfi hjá Teva Pharmaceuticals Finance Iceland sf. frá 2004 og bankastjóri í Búnaðarbanka Íslands hf. 2001-2003. Árni var meðeigandi og stjórnarformaður hjá Deloitte hf. 1999-2001 og meðeigandi hjá Löggiltum endurskoðendum hf. 1985 og stjórnarfor¬maður frá 1989.

Árni útskrifaðist frá endurskoðunarsviði viðskiptadeildar Háskóla Íslands 1979 og varð löggiltur endurskoðandi 1984. Hann var formaður Félags löggiltra endurskoðenda 1989-1991 og hefur setið í ýmsum fagnefndum þess. Árni var formaður Norðurlandasambands endurskoðenda 1999-2001. Hann hefur sinnt ýmsum kennslustörfum frá 1980, verið stundakennari í meistaranámi við Háskólann í Reykjavík frá 2004 og haldið fjölda námskeiða.

Árni hefur setið í fjölda nefnda um skatta- og fjármál og átt sæti í stjórnum fyrirtækja en hann situr nú í stjórnum fjögurra fyrirtækja. Hann hefur átt sæti í Yfirtökunefnd Kauphallar Íslands frá árinu 2005.