Á aðalfundi Arion banka var kjörin ný stjórn bankans. Í henni sitja Agnar Kofoed-Hansen, Guðrún Johnsen, Jón G. Briem, Måns Höglund, Monica Caneman og Theodór S. Sigurbergsson. Agnar er fulltrúi Bankasýslu ríkisins í stjórninni. Kristján Jóhannsson fer úr stjórninni.

Varamenn í stjórn bankans voru kjörnir Guðjón Ólafur Jónsson, Guðrún Björnsdóttir, Jóhannes Rúnar Jóhannsson, Sigurbjörn Gunnarsson, Una Eyþórsdóttir og Þóra Hallgrímsdóttir.

Úr tilkynningu frá bankanum:

Monica Caneman, formaður stjórnar Arion banka, flutti skýrslu stjórnar. Í máli sínu kom hún meðal annars inn á það mikilvæga endurreisnarstarf sem fram fer hér á landi og þau jákvæðu batamerki sem víða má sjá, til dæmis í glímunni við fjárlagahallann, atvinnuleysi og skuldamál heimila og fyrirtækja. Einnig benti hún á að Íslendingar eru að mörgu leyti komnir lengra í endurreisn efnahagslífsins en margar aðrar þjóðir sem enn kljást við vandamál fjármálafyrirtækja, fjárlagahalla og mikið atvinnuleysi. Ísland njóti þess að ráða nú yfir bankakerfi sem ekki hefur brýna þörf fyrir ytri fjármögnun og að mikilli óvissu á eignahlið bankakerfisins hafi verið eytt.