Búið er að skipa nýja stjórn sameinaðs banka Straums fjárfestingabanka og MP banka, en það var gert á hlutahafafundi fyrr í dag.

Stjórnarmönnum var fjölgað úr fimm í sjö og voru eftirtaldir aðilar kjörnir í stjórnina: Þorsteinn Pálsson, Finnur Reyr Stefánsson, Skúli Mogensen, Inga Björg Hjaltadóttir, Kristín Guðmundsdóttir, Jónas Hagan Guðmundsson og Þórunn Pálsdóttir.

Stjórnin hefur ekki enn skipt með sér verkum og mun gera það á stjórnarfundi. Búast má við að Þorsteinn taki við stöðu stjórnarformanns, en það er hins vegar ekki ljóst ennþá.

Sigurður Atli Jónsson, forstjóri MP banka, segir önnur mál ekki hafa verið á dagskrá fundarins og ekki verði tilkynnt um nýtt nafn í bili. Bankinn muni þangað til starfa undir nafni og kennitölu MP banka. „En við svörum „MP Straumur“ þegar síminn hringir,“ segir Sigurður Atli.