Á aðalfundi SÍF hf. sem fram fór á föstudaginn sagði Ólafur Ólafsson stjórnarformaður að árið 2004 hefði verið ár mikilla umbreytinga í starfsemi SÍF hf. Gagnger endurskipulagning hefði haft í för með sér breyttar og skýrari áherslur í starfseminni en félaginu var skipt í fullvinnslu matvæla annars vegar og sölu og markaðssetningu lítt unnina sjávarafurða hins vegar. ?Eftir þessar breytingar er SÍF öflugt matvælafyrirtæki með arðsaman rekstur, traustan efnahag og skýr markmið um að verða leiðandi í framleiðslu og sölu á fullunnum matvælum í Evrópu.?

Ný fimm manna stjórn var kjörin á aðalfundinum. Tillaga um fækkun stjórnarmanna úr sjö í fimm auk varamanns var samþykkt. Fimm manns voru í framboði til stjórnar og þar sem ekki barst mótframboð var ný stjórn sjálfkjörin. Nýja stjórn SÍF skipa: Ólafur Ólafsson, Aðalsteinn Ingólfsson, Guðmundur Hjaltason, Hartmut M. Krämer, stjórnarmaður Kingfisher plc, Toupargel SA og Herlitz AG, og Nadine Deswasiere, framkvæmdastjóri hjá Nestlé í Frakklandi. Varamaður er Guðmundur Ásgeirsson.

Samþykkt var að breyta reikningsári félagsins frá 1. júlí til 30. júní árið á eftir. Núverandi reikningsár, sem hófst 1. janúar 2005, endar 30. júní næstkomandi.

Um framtíðina sagði Ólafur: ?Rík áhersla er á að styrkja innviði félagsins. Í því felst meðal annars að fjárfest verður frekar í rekstrareiningum sem falla að kjarnastarfsemi félagsins og uppfylla skilyrði um arðsemi, auk þess að ýta undir sókn á þeim mörkuðum sem félagið starfar á. Stefnumörkunin kveður einnig á um að félagið selji frá sér eignir og rekstur sem ekki tilheyrir kjarnastarfsemi þess. Forsendur til sóknar á lykilmörkuðum hafa ekki verið betri í sögu félagsins. SÍF er að feta sig inn á nýjar brautir og gert er ráð fyrir að nýtt félag sýni arðsemi sem standi undir kröfum hluthafa."

Jakob Sigurðsson gerði grein fyrir reikningum SÍF, afkomu félaga innan samstæðunnar og framtíðarsýn. Jakob lýsti breyttu félagi með 79 milljarða króna veltu, starfsemi í 11 löndum og um 3.900 starfsmenn en SÍF samstæðan selur sjávarafurðir og sælkerarétti til um 60 landa. Jakob sagði að vörumerki félagsins væru afar sterk og félagið væri í forystu á öllum lykilmörkuðum þess. Jakob sagði rekstur á þessu ári ganga samkvæmt áætlun og horfur á árinu væru góðar.