Í stjórn VÍS voru kjörin þau Benedikt Gíslason, Jostein Sørvoll, Reynir Finndal Grétarsson, Herdís Dröfn Fjeldsted og Helga Hlín Hákonardóttir. Herdís Dröfn var kjörin formaður stjórnar og Jostein varaformaður. Aðalfundur fyrirtækisins var haldinn í dag og þar var kosið um stjórnina. Til varastjórnar voru kjörin þau Andri Gunnarsson og Soffía Lárusdóttir.

Í síðustu stjórn sátu þau Bjarni Brynjólfsson, Helga Jónsdóttir, Guðmundur Þórðarson, Jostein Sørvoll sem var varaformaður stjórnar og Herdís Dröfn Fjeldsted sem var formaður stjórnar.

Eins og Viðskiptablaðið sagði áður frá voru tíu manns í framboði til stjórnarinnar. Þar af voru sjö frambjóðendur nýir, og höfðu þá ekki setið í síðustu stjórn. Í dag barst svo tilkynning um að Jóhann Halldórsson, einn frambjóðandi til stjórnarinnar, hygðist draga framboð sitt til baka.

Fundurinn sem haldinn var í dag var framhaldsaðalfundur, en á þeim síðasta var kjöri ekki náð vegna þess að kynjahlutföll frambjóðenda samræmdust ekki lögum um hlutfall stjórnarmanna í fyrirtækjum.