Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, lagði í dag fram á Alþingi frumvarp til laga um stofnun nýrrar ríkisstofnunar, Bankasýslu ríkisins.

Samkvæmt frumvarpinu er stofnuninni ætlað að fara með eignarhluti í fjármálafyrirtækjum á meðan uppbyggingu og endurreisn fjármálakerfisins stendur. Gert er ráð fyrir að stofnunin starfi í fimm ár eða skemur og þá verður hún lögð niður.

Sem fyrr segir á Bankasýsla ríkisins að halda utan um eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum, setja þeim viðmið í rekstri, svo sem um arðsemi af eigin fé og almennar áherslur varðandi endurskipulagningu fjármálakerfisins. Þá er stofnuninni ætla að undirbúa og vinna tillögur sem miða að því að koma eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum í sölu en það mun verða hlutverk stofnunarinnar að meta hvort og hvenær sé fýsilegt að bjóða tiltekna eignarhluti til sölu á almennum markaði, eins og það er orðað í frumvarpi fjármálaráðherra.

Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að rekstur stofnunarinnar kosti um 70 – 80 milljónir króna á ári hverju. Fari svo að stofnunin starfi í 5 ár getur kostnaðurinn því numið 350 – 400 milljónum króna samkvæmt frumvarpinu.

Fjármálaráðherra skipar þriggja manna stjórn stofnunarinnar og ákveður kjör hennar. Stjórnin ræður forstjóra en Kjararáð ákveður laun hans. Þess er krafist að þessir einstaklingar hafi haldgóða menntun og sérþekkingu á banka- og fjármálum. Til viðbótar verði þrír til fimm starfsmenn hjá stofnuninni.

Þá skipar stjórn stofnunarinnar þriggja manna valnefnd sem tilnefndir fólk í bankaráð eða stjórnir fjármálafyrirtækja sem ríkið á í.

Á vef Alþingis má sjá frumvarpið í heild sinni.