Selfossbíó hefur samið við Nýherja um kaup á stafrænni NEC sýningarvél og sýningarstjórnkerfi fyrir kvikmyndahús. Sýningarvélin er sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi.Einnig verður sett upp fullkomið 3D-kerfi og Dolby hljóðbúnaður. Sýningarstjórnkerfið er þróað af Nýherja í samvinnu við Smárabíó og Háskólabíó en það annast alla sjálfvirkni á bósýningum, s.s. stýrir hljóði, ljósi, hurðum og flestu sem viðkemur kvikmyndasýningu. Sýningarstjórar geta jafnframt gripið inn í eða fylgst með framgangi sýninga frá spjaldtölvu eða snjallsíma.

Sambíóin leigðu áður Selfossbíó með tækjum og tólum af eigendum H'otel Selfoss. Tækjabúnaðurinn var orðinn úreltur og var sýningum hætt í október í fyrra. Þeir Axel Ingi Viðarsson og Marinó Geir Lilliendahl greindu svo frá því á vordögum að þeir hyggðust hefja bíósýningar í bænum á nýjan leik og endurnýja tækjakostinn. Samningurinn við Nýherja er liður í því. Nú er unnið að uppsetningu á búnaði og gert ráð fyrir því að sýningjar hefjist í Selfossbíó á næstu vikum.

Fram kemur í tilkynningju frá Nýherja að fyrirtækið muni annast uppsetningu og þjónustu á sýningarbúnaði Selfossbíós.