Ísaga fagnaði stórafmæli á dögunum og er eitt örfárra íslenskra fyrirtækja sem eiga 100 ára sögu að baki. Þrátt fyrir djúpar rætur og gamalkunnugt vörumerki ber sjálfsagt hæst á afmælisárinu að Ísaga varð hluti af alþjóðlega stórfyrirtækinu Linde plc í mars sl. þegar samruni gasrisanna, Praxair og Linde Group, gekk í gegn. Sameinað félag, Linde plc, er stærsta gasfyrirtæki heims með starfsemi í yfir 100 löndum og yfir 85 þúsund starfsmenn. Markaðsverðmæti Linde plc er í dag ríflega 100 milljarðar dollara.

Erik Larsson, framkvæmdastjóri Ísaga, segir nýtt eignarhald hafa ýmsar breytingar í för með sér

„Sameiningin hefur ekki breytt okkar daglega rekstri mikið en vissulega eru ákveðnar áherslubreytingar framundan. Hvað hinn almenna neytenda varðar mun hann sjálfsagt helst taka eftir nafnabreytingunni sem fyrirhuguð er á næsta ári þegar Ísaga mun taka upp nafnið Linde. Þetta gerum við til þess að leggja ríkari áherslu á hina gríðarlegu þekkingu sem Linde býr yfir í krafti stærðar og fjölbreytni móðurfélagsins. Okkur er í mun að koma því á framfæri við viðskiptavini okkar að þessi þekking stendur þeim til boða og við viljum vinna með honum í þróun nýrra lausna í rekstrinum,“ segir Erik Larsson í samtali við Viðskiptablaðið.

Það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan Ísaga var stofnað fyrir hundrað árum af reykvískum athafnamönnum í samstarfi við sænska  fyrirtækið AGA. Markmið félagsins var að framleiða asetýlengas til að lýsa upp vita landsins, sem þá var verið að reisa við hafnir og annesi umhverfis landið. Þótt gas hafi vikið fyrir rafmagnslýsingu í vitum landsins er þjónusta við sjávarútveginn enn einn af hornsteinum félagsins.

„Einn af stærstu viðskiptavinur okkar er Samherji og sjávarútvegur er stærsta greinin í matvælaframleiðslu sem er einn af sex lykilmörkuðum okkar og tekur líka ræktun grænmetis í gróðurhúsum og drykkjarvöruframleiðslu svo eitthvað er nefnd.

Heilbrigðisgeirinn er önnur mikilvæg stoð  í rekstrinum en um 20% tekna félagsins eru vegna viðskipta við spítala og heilsugæslu. Önnur svið eru framleiðsla á logsuðugasi fyrir iðnaðarframleiðslu  og þá má nefna lyfjaframleiðslu og málmog efnaiðnað.  Stefnan til framtíðar er að fjölga þessum stoðum og í dag leggjum við sérstaka áherslu á verkfræði og tæknilausnir þannig að þekking verði stærri hluti af kjarnastarfsemi félagsins,“ segir Erik.

Framleiðsla Ísaga kemur ótrúlega víða við og tengist beint eða óbeint allri atvinnustarfsemi í hagkerfinu. Reksturinn endurspeglar þannig vel efnahagslíf landsins, bæði gömlu undirstöðugreinarnar sem og nýja vaxtarsprota.

„Rekstur Ísaga hvílir á traustum stoðum og vöxtur félagsins hefur í gegnum tíðina verið í takt við gengi helstu viðskiptavina okkar. Hagvöxtur á Íslandi hefur verið góður síðustu áratugi og hið sama á við um vöxt Ísaga. Það var lítils háttar samdráttur í tekjum fyrsta árið eftir fjármálakreppuna 2008, eins og við var að búast, en síðan þá hefur reksturinn gengið vel. Veltan á síðasta ári nam 2,5 milljörðum króna sem er ríflega tvöfalt meiri velta en fyrir 10 árum síðan,“ segir Erik Larsson.

Helsti vaxtarsprotinn undanfarin ár hefur verið þjónusta við fiskeldi en greinin notar mikið af súrefni við framleiðslu sína. Miklar vonir eru bundnar við að fiskeldi muni halda áfram að vaxa hratt á næstu árum, en reiknar Erik með að fiskeldi muni halda áfram að draga vaxtarvagninn á næstu árum?

„Það eru vissulega mikil tækifæri í fiskeldi á Íslandi. Gagnrýnin umræðan um greinina hefur hins vegar ekki farið fram hjá okkur og við erum meðvituð um að það er ekki gefið að greinin haldi áfram að vaxa jafnhratt og undanfarin misseri. Erlendis hefur Linde plc verið í  fararbroddi í samstarfi við framleiðendur í að þróa og finna lausnir fyrir landeldi. Það er að segja fiskeldi þar sem ekki er notast við sjókvíar heldur fer alfarið fram á landi en  þannig má koma í veg fyrir þau neikvæðu áhrif sem sjókvíaeldi getur haft á umhverfið. Í dag eigum við töluverð viðskipti við framleiðendur fiskseiða, sem fer öll fram á landi, og við viljum gjarnan styðja þá áfram í þróun á þessari aðferð í eldinu.

Tækifærin hér eru fleiri  og mörg hver mjög spennandi. Þannig að þótt hægt hafi lítillega  á hjólum atvinnulífsins að undanförnu horfum við bjartsýnum augum á framhaldið. Þetta eru spennandi tímar,“ segir Erik Larsson.