Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, hvetur fyrirtæki sem sjá fram á samdrátt til að draga úr uppsögnum eins og kostur er en semja frekar um lækkun starfshlutfalls.

„Nýju úrræði um hlutabætur Atvinnuleysistryggingasjóðs er ætlað að ýta undir þessa leið. Fjallað var um frumvarp til breytinga á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðasjóð launa, sem felur þetta í sér, á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun. Ríkisstjórnin samþykkti að senda það áfram til þingflokka en endanlegt kostnaðarmat mun liggja fyrir eftir helgi. Ráðherra bindur vonir við að frumvarpið fái skjóta meðferð á Alþingi og geti komið til framkvæmda sem fyrst,“ segir á vef félagsmálaráðuneytisins.

Í frumvarpinu felst að sá tími sem heimilt er að greiða fólki tekjutengdar atvinnuleysisbætur verður lengdur hlutfallslega í samræmi við lækkað starfshlutfall. Einnig verður skerðing atvinnuleysisbóta vegna launagreiðslna fyrir hlutastarf felld niður.

Í þriðja lagi er sú breyting gerð að verði fyrirtæki gjaldþrota munu greiðslur úr Ábyrgðarsjóði launa miðast við tekjur samkvæmt starfshlutfalli manns áður en til samdráttar kom í fyrirtækinu.

„Ég bind vonir við að frumvarpið verði atvinnurekendum hvatning til að lækka starfshlutfall starfsmanna sinna fremur en að grípa til uppsagna, enda geti sú leið þjónað hagsmunum fyrirtækja sem þurfa að draga saman seglin, frekar en að slíta að fullu ráðningarsambandi við starfsmenn. Þessi leið ætti að vera öllum í hag, bæði fyrirtækjum, starfsfólki og samfélaginu í heild,“ segir Jóhanna.

Þetta kemur fram á vef félagsmálaráðuneytisins.