Microsoft hefur kynnt nýjustu útgáfu Office-skrifstofuhugbúnaðarins þar sem lögð er áhersla á að forritin og notkun þeirra nýtist ekki einvörðungu á tölvu heldur einnig á farsíma og önnur smától og virki einnig í netvöfrum. „Þannig má með Office Web Apps, sem er alger nýjung í Office 2010, opna, vinna með Word, Excel, Powerpoint og One Note skjöl óháð því hvort Office 2010 sé uppsett á viðkomandi tölvu eða ekki. Aðgangur að Office Web Apps er án endurgjalds – það eina sem þarf er ókeypis skráning hjá þjónustunni Windows Live,“ segir í tilkynningu frá Microsoft á Íslandi.

„Meðal annarra nýjunga í Office 2010 eru innbyggð myndvinnslutól í Word og PowerPoint, sem gera notendum kleift að sníða til myndir sem settar eru inn í skjölin. Með nýjum eiginleika í PowerPoint má nú á einfaldan hátt „senda út“ glærukynningu í gegnum netið, þannig að sá sem flytur kynninguna þarf ekki að vera staddur á sama stað og áhorfendurnir. Umtalsverðar endurbætur á Outlook-samskiptaforritinu gera umsýslu með tölvupóst einfaldari auk þess sem hægt er að tengja það við vinsælar samfélagsvefsíður.“

Nýtist á þremur ólíkum skjáum

„Þetta eru spennandi tímar fyrir Microsoft, því það er ekki langt síðan við gáfum út nýtt stýrikerfi, Windows 7, sem hlaut einstaklega góðar viðtökur. Sama hugmyndafræðin var notuð við þróun Office 2010 og því erum við þess fullviss að notendur munu einnig taka Windows 2010 opnum örmum. Það sem mér finnst áhugaverðast við þessa útgáfu er að með henni sér almenningur sennilega í fyrsta skipti í verki áherslu Microsoft á að lausnirnar okkar nýtist til fullnustu á þremur mismunandi skjáum: Á tölvunni, í símanum eða smátækinu og í netvafranum. Um leið sýnir Office Web Apps hvernig Microsoft er farið að veita þjónustu í gegnum tölvuský í auknum mæli – og það er þróun sem er bara rétt að byrja,“ segir Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi, í tilkynningunni.