Íslenski tölvuleikjaframleiðandinn Plain Vanilla kynnti í dag til sögunnar nýja útgáfu af QuizUp spurningaleiknum, en þar mun fyrri útgáfan hafa verið tekin í gegn. Í nýju útgáfunni er lögð meiri áhersla á samskipti og að tengja fólk með svipuð áhugamál. Að auki hefur vefurinn QuizUp.com tekið miklum breytingum og geta notendur í borð- og fartölvum nú spilað leikinn í gegnum síðuna. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

„Ein áhugaverðasta viðbótin í nýja QuizUp er fréttaveita svipuð þeim sem er í ýmsum samfélagsmiðlum. Fréttaveitan er sérsniðin að hverjum og einum og auðveldar spilurum að eignast nýja vini og áhugamál. Á vefsíðunni QuizUp.com geta spilarar nú gert alla sömu hlutina í nýju útgáfu QuizUp í borð- eða fartölvum og þeir geta í símum og spjaldtölvum,“ segiir í tilkynningunni.

Helstu nýjungarnar í QuizUp eru eftirfarandi:

  • Nýtt viðmót til að auðvelda spilurum að finna nýja spurningaflokka.
  • Fréttaveita þar sem notandinn getur skoðað uppfærslur frá nýjum spurningaflokkum sem vinir hans fylgja, titla sem þeir hafa unnið sér inn, séð nýja vini vina o.fl.
  • Nýjar prófílsíður notenda sýna persónulegar stöðuuppfærslur þeirra, myndir, sameiginleg áhugamál líkt og aðrir samfélagsmiðlar en einnig tölfræði úr leikjum þeirra, í hvaða spurningaflokkum þeir keppa helst o.fl.
  • Notendur geta fylgt (e. follow) vinum sínum og ákveðnum efnisflokkum.
  • Hægt að leita að andstæðingum eftir aldri, kyni, fjarlægð frá notanda og áhugamálum.
  • Hægt að fletta í gegnum notendur til að finna næsta andstæðing og sjá hvaða vinir og spurningaflokkar eru sameiginlegir.

„Við erum gríðarlega spennt fyrir nýju útgáfunni af QuizUp. Hún byggir á sömu hugmynd og heillaði fólk við eldri útgáfuna en nú beinum við sjónum okkur að því að efla samfélagshluta leiksins. Þar erum við að hvetja notendur til að kynnast öðrum notendum sem deila sömu áhugamálum og er eitthvað sem bætir alveg nýrri vídd við QuizUp upplifunina. Ég hvet Íslendinga til að prófa þessa nýju útgáfu og gefa okkur sitt álit. Leikurinn er að öllu leyti hannaður á Íslandi, nánar tiltekið á Laugavegi 77, þar sem vinna nú um 85 manns. Við erum búin að leggja allt okkar hugvit í þessa nýju útgáfu og þetta er því mjög stór dagur í sögu fyrirtækisins,“ segir Þorsteinn Baldur Friðriksson, stofnandi og framkvæmdastjóri Plain Vanilla.

Í nýrri útgáfu leiksins er að finna yfir 600 þúsund spurningar í 1.200 flokkum. 33 milljónir manna hafa náð í eldri útgáfu leiksins og 30 þúsund nýir notendur bætast við hvern einasta dag. Virkir spilarar spila tæplega 7 milljónir leikja á dag og eyða að meðaltali 30 mínútum í að spila leikinn dag hvern. Í heildina hafa verið spilaðir rúmlega 4 milljarðar leikja þar sem spilarar hafa svarað 28 milljörðum spurninga.