Hrein ný útlán innlánastofnana sem eru ný útlán að frádregnum upp- og umframgreiðslum námu 116,9 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi þessa árs og drógust saman um 38% frá sama tímabili í fyrra. Ný útlán til fyrirtækja námu 24,6 milljörðum á fjórðungnum og drógust saman um 64% frá sama tímabili í fyrra. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Seðlabanka Íslands sem birtar voru í síðustu viku.

Ný lán til heimilanna námu 39,1 milljarði á fjórðungnum og drógust saman um 16%. Þar af námu ný húsnæðislán 34,9 milljörðum og drógust saman um 9%, ný bílalán námu 2,9 milljörðum og drógust saman um 36% auk þess sem lán sem eru flokkuð undir önnur lán heimila námu 1,3 milljörðum og drógust saman um 61% frá sama tímabili í fyrra.

Lán til fyrirtækja dregist saman um helming

Hrein ný lán innlánastofnana á fyrstu níu mánuðum ársins námu 213,3 milljörðum króna og drógust saman um 30% frá sama tímabili í fyrra eða um 90,5 milljarða. Ný lán til heimilanna námu 107,2 milljörðum á fyrstu níu mánuðum ársins og lækkuðu um 7% frá sama tímabili í fyrra. Þar af námu ný húsnæðislán 94,3 milljörðum og drógust saman um 3%, ný bílalán námu 7,5 milljörðum og lækkuðu um 34% milli ára en þess má geta að samdráttur í innflutningi nýrra bíla nemur um 40% það sem af ári. Þá námu lán til heimilanna sem flokkuð eru undir önnur lán 6 milljörðum á fyrstu níu mánuðum ársins og drógust saman um 12% frá sama tímabili í fyrra.

Ný hrein útlán til fyrirtækja námu 90,3 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins og drógust saman um ríflega helming frá sama tímabili í fyrra eða um 91,3 milljarða króna. Þegar samdráttur í nýjum útlánum á fyrstu níu mánuðum ársins er skoðaður eftir atvinnugreinum standa lán til sjávarútvegsins undir tæplega helmingi samdráttarins. Ný lán til fyrirtækja sem flokkuð eru undir fiskvinnslu námu 4,3 milljörðum á tímabilinu og drógust saman um 29,4 milljarða frá sama tímabili í fyrra eða 87,3%. Ný hrein lán undir flokknum iðnaður, vinnsla sjávarafurða námu 1,1 milljarði á fyrstu níu mánuðum ársins og drógust saman um 12,5 milljarða eða 91,7% frá sama tímabili í fyrra. Samtals námu nýjar lánveitingar til fyrirtækja í iðnaði 7,9 milljörðum og drógust saman um 16,3 milljarða eða 67,2% frá sama tímabili í fyrra.

Þá drógust hreinar nýjar lánveitingar til fyrirtækja undir flokknum verslun saman um 21 milljarð eða 90% en þær námu 2,3 milljörðum á fyrstu níu mánuðum ársins auk þess sem lán til fyrirtækja í þjónustu námu 35,5 milljörðum og drógust saman um 31,7 milljarða frá sama tímabili í fyrra. Samdráttur skýrist að mestu leyti af nýjum lánum sem eru undir flokknum þjónusta fasteignafélög en þau fóru úr 36,3 milljörðum á fyrstu níu mánuðum síðasta árs í 1,7 milljarða á sama tímabili á þessu ári. Þá munar sérstaklega um að hrein ný lán til flokksins námu 14 milljörðum í júlí í fyrra en voru neikvæð um 7,1 milljarð í júlí í ár.

Ný lán til fyrirtækja sem falla undir aðra þjónustu námu 33,8 milljörðum og jukust um 2,8 milljarða frá sama tímabili í fyrra. Lán til fyrirtækja sem falla undir orku- og vatnsveitur námu 4,4 milljörðum og tæplega tvöfölduðust frá sama tímabili í fyrra auk þess sem ný lán til fyrirtækja í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð námu 19 milljörðum og jukust um 5,6 milljarða milli ára.

N ánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .