Landsbankinn hefur óskað eftir viðræðum við borgina um lóðakost til að byggja nýjar höfuðstöðvar í miðbænum. Steinþór Pálsson bankastjóri segir í Morgunblaðinu í dag að ekki hafi verið óskað eftir ákveðinni lóð. Í síðustu viku var fjallað um að Landsbankinn vildi lóð á hafnarbakkanum við hlið tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra gagnrýndi Landsbankann á vefmiðlinum Eyjunni og sagði að best væri fyrir bankann að lána til arðbærra verkefna sem auka framleiðslu og skapa störf.

„Við gerum þetta alla daga. Landsbankinn er búinn að lána yfir 70 milljarða í ný útlán á fyrstu 6 mánuðum ársins. Bankinn er búinn að spara töluvert í sínum rekstri frá fyrra ári og við ætlum að halda áfram á sömu braut. Liður í því er að færa okkur í skilvirkara húsnæði," segir Steinþór við Morgunblaðið.