Ingólfur Bjarni Sigfússon, vef- og nýmiðlastjóri Ríkisútvarpsins, hefur sent fjölmiðlum tilkynningu vegna frétta þess efnis að RÚV hyggist opna nýja útvarpsstöð , en Vísir greindi fyrstur miðla frá málinu. Í tilkynningunni kemur fram að um er að ræða nýja útvarpsstöð fyrir krakka.

Í tilkynningunni segir að ný tækni og tilkoma snjalltækja breyti forsendum fyrir alla fjölmiðla. Notendahópurinn sundrist og þarfirnar verði sértækari, en ný tækni geti auðveldað fjölmiðlum að raða upp tilbúnu efni í nýjum efnisveitum með sáralitlum kostnaði.

„Í auglýsingu um verkefnisstjóra KrakkaRÚV kom m.a. fram að stefnt væri að opnun nýrrar stafrænnar útvarpsstöðvar fyrir börn. Sú útvarpsstöð eru þó með allt öðru sniði, efnislega og tæknilega, en þær rásir sem RÚV hefur rekið til þessa. Dreifing verður t.a.m. einungis um netið í stað FM-dreifingar, sem væri gríðarlega kostnaðarsöm. Rekstrarkostnaður RÚV vegna netstöðvar KrakkaRÚV er einnig mjög lár og nemur hundruð þúsunda króna árlega m.v. áætlanir. Með nýrri stafrænni útvarpsrás fyrir börn er verið að bæta þjónustu með því að nýta efni betur en áður – en án þess að auka kostnað nema að mjög litlu leyti,“ skrifar Ingólfur Bjarni.

Hann segir umræður um Rás 3 hafa komið upp reglulega um nokkurra ára vil enda megi færa rök fyrir því að RÚV eigi að sinna yngri hlustendahópum á rás sem sé þeim ætluð. Umfang og kostnaður hafi hins vegar orðið til að horfið hafi verið frá þessum hugmyndum.

„Dagskrá RÚV er í sífelldri skoðun og lifandi umræða meðal starfsfólks og stjórnenda um hvernig RÚV uppfyllir best hlutverk sitt sem almannaþjónusta sem á erindi við alla þjóðina. Umræður um Rás 3 og sambærilegar hugmyndir eru eðlilegur og sjálfsagður hluti þeirrar umræðu,“ segir hann að lokum.